Maðurinn sem grunaður er um að hafa orðið Gylfa Bergmann Heimissyni að bana, í íbúðarhúsnæði við Barðavog, laugardagskvöldið 4. júní, heitir Magnús Aron Magnússon og er fæddur í desember árið 2001.
Magnús hefur verið úrskurðaður í gæsluvarðhald til 1. júlí næstkomandi og liggur fyrir að hann hefur ekki kært gæsluvarðhaldsúrskurðinn til Landsréttar. Lögregla gefur hins vegar ekki upp hvort hann hefur játað eða neitað því að hafa framið voðaverkið.
Hinn grunaði býr með móður sinni í risíbúð hússins þar sem voðaverkið var framið en hinn látni bjó í kjallaranum. Í langan tíma hafa nágrannar og jafnvel íbúar víðar í Langholtshverfi haft áhyggjur af sérkennilegu og ógnandi framferði Magnúsar. Hann hefur meðal annars ratað í fréttir fyrir ofbeldi gegn hundum í hverfinu og árið 2019 var hann handtekinn vegna ofbeldisfullrar hegðunar í garð mótmælenda á Austurvelli sem þá lýstu stuðningi við flóttamenn.
Magnús er talinn glíma við geðræn vandamál. Íbúar segja hann ekki eiga að búa í almennu íbúahverfi heldur í sértæku úrræði. DV hefur hins vegar engar upplýsingar um hvort og hvaða úrræða leitað hefur verið fyrir hann í heilbrigðiskerfinu. Ennfremur liggur ekki fyrir hvort hann er sakhæfur en lögregla segir að nú sé lagt mat á andlegt ástand hans.