Þetta sagði Svein Holtsmark, prófessor við varnarmálastofnun Oslóarháskóla, í samtali við TV2. Hann sagði að það að skrúfa fyrir gasið sé meðal margra sífellt örvæntingarfyllri tilrauna Rússa til að fá Vesturlönd til að slaka á refsiaðgerðum eða til að draga úr stuðningi við Úkraínu.
Hann sagði að Rússar muni reyna að beita Vesturlönd þrýstingi og vonast til að þau láti undan. Hugsanlega muni þeir loka fyrir gasstreymið til allra aðildarríkja ESB í þeirri von að þau muni þá hætta að senda vopn til Úkraínu. Ef það mistakist hins vegar sé það ekki gott fyrir Rússa. Þá hafi þeir spilað síðasta trompinu sínu út og hafi ekkert meira upp í erminni.