Maður á fertugsaldri hefur verið ákærður fyrir nokkur afbrot, þar sem hæst ber annars vegar líkamsárás á lögregluþjón á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi og hins vegar einstaklega bíræfið innbrot í Mosfellsbæ þar sem hann er sagður hafa stolið verðmætum fyrir margar milljónir króna.
Meint árás á lögreglumanninn átti sér stað miðvikudaginn 13. maí árið 2020. Í ákæru er maðurinn sagður hafa veist að lögreglumanni sem var við skyldustörf á bráðamóttökunni, slegið hann hnefahöggi í hnakkann og klórað hægra augnlok, með þeim afleiðingum að lögreglumaðurinn hlaut mar á augnloki og yfirborðsáverka á höfði.
Innbrotið í Mosfellsbæ átti sér stað í lok janúar árið 2021. Braust maðurinn inn í íbúðina með því að brjóta upp útidyrahurð, rótaði hann í skúffum og skápum og stal 4,5 milljónum króna í reiðufé. Hann stal síðan myndavélarbúnaði að verðmæti 1,5 til 2 milljónir króna.
Maðurinn er einnig sakaður um þjófnað úr versluninni Nítró Sport í Kópavogi, en þaðan rændi hann enduro hjóli af gerðinni Beta, mótorkross-fatnaði og hjálmi.
Ennfremur er hann sakaður um tvö umferðarlagabrot.
Aðalmeðferð verður í máli mannsins við Héraðsdóm Reykjavíkur þann 14. júní næstkomandi.