Nokkuð áhugaverður pistill birtist í Morgunblaðinu í dag eftir Einar S. Hálfdánaron hæstaréttarlögmann. Það sem er hvað áhugaverðast við pistilinn er að í honum hjólar hæstaréttarlögmaðurinn í nokkuð marga, einstaklinga, stjórnmálaflokka, stofnanir og fyrirtæki.
Í upphafi pistilsins segist Einar vilja gera þingmönnum sem og blaðamönnum tilboð. „Sífellt furðulegri fréttaflutningur lítur dagsins ljós hvað viðkemur útlendingum sem hér sækja um vernd. Um þetta er fjallað í löngu máli í helstu „fréttamiðlum“. Höfuðatriði í huga fréttamannsins er jafnan „mannúð“. Er gætt mannúðar eða gætir kannski mannvonsku?“ segir hann.
Tilboðið sem Einar ræðir um snýst um að „yfirfara lög um útlendinga, hvaða afstöðu stjórnvöldum beri að taka á grundvelli þeirra, lagaframkvæmd í Evrópu og fleira þessu tengt.“
Einar vekur þá athygli á því að stór hluti fólks í Afríku hefur hugleitt það að flytja til Evrópu en hann segir einn fimmta þeirra hafa hugleitt það mjög alvarlega. Íbúafjöldi Afríku telst um 1,4 milljarðar. Ef mér skjátlast ekki eru þeir sem hingað ætla sér að koma sem sé fleiri en þeir sem fyrir eru,“ segir hann.
„Vandi Afríku og annarra slíkra landsvæða verður því ekki leystur með því að breyta Evrópu í Afríku líkt og foringi franskra jafnaðarmanna hefur vakið athygli á. Skilti á fámennum fundi á Austurvelli þar sem sagði „Engin landamæri“ og fleira í þeim dúr voru allrar athygli verð. Sérstaklega fyrir nýjan formann Rauða krossins, Silju Báru Ómarsdóttur prófessor.“
Einar talar þá meira um Rauða krossinn en hann telur hann með í einu af „vinstriöflunum“ ásamt tveimur af stærstu fjölmiðlum landsins. „Á liðnum dögum hafa vinstriöflin, Rauði krossinn, Stöð 2 og RÚV dregið fram fólk sem þau nefna, hiklaust, flóttafólk því til stuðnings að engar brottvísanir vegna tilefnislausra beiðna um hæli skuli fara fram,“ segir hann.
„Þar eð engin málefnaleg rök er að finna er gripið til tilfinningalegra röksemda. – Við munum afleiðingar þess að fjölskyldu var veittur ríkisborgararéttur á grundvelli veikinda barns. Fjölmiðlar á Balkanskaganum tóku málið upp og afleiðingin varð gegndarlausar, tilhæfulausar umsóknir um hæli. Nú virðist sem sumir fréttamenn telji að ekki þurfi stríð eða raunverulegar ógnir sem gildar ástæður fyrir vernd. Þau sem koma hingað til lands og biðja um hæli skuli sem sé einungis þurfa að bera við til dæmis fötlun, elli, fátækt, slæmum aðbúnaði eða veikindum.“
Einar grípur þá á það ráð að tala um að hér á landi sé nú þegar fólk „líður fyrir fötlun, elli, fátækt og veikindi“ og að það skorti „viðunandi umönnun“ fyrir það. „Er ekki ráð fyrir það fólk að leita til Rauða krossins?“ spyr hann en bætir svo við að hann hafi hætt að borga Rauða krossinum fyrir nokkrum árum.
„Reyndar hætti ég að borga pólitískum Rauða krossinum fyrir nokkrum árum og hvet alla eindregið til hins sama. Rauði krossinn lifir nú orðið á eymd spilafíkla, jafn siðlaust og það nú er. Á sama tíma prédikar Rauði krossinn um meintar siðferðilegar skyldur annarra!“
Undir lokin á pistlinum fer Einar að hjóla í stjórnmálafólk og stjórnmálaflokka en hann byrjar á því að tala um Loga Einarsson, formann Samfylkingarinnar. „Ég veit að það stoðar lítt að biðja vinstrafólk um röksemdir eða skoðun á afleiðingum aðgerða. Logi Einarsson hvorki skilur né sér neitt, enda alltaf með tárin í augunum,“ segir hann.
Næst tekur Einar fyrir Pírata. „Rök Pírata í persónulegum samtölum eru einföld. Hér eiga að vera opin landamæri. Hingað vilji svo fáir koma að landamæra sé ekki þörf! Samfylkingin aðhyllist opin landamæri án þess að þora að segja það, en mótmælir í hvert sinn sem einhverjum er neitað um hæli,“ segir hann.
Þá tekur hann næst fyrir Viðreisn og svo Flokk fólksins. „Ekki verður lengur séður neinn munur á Viðreisn og öðrum vinstriflokkum í þessum málaflokki fremur en öðrum. Flokkur fólksins er víst nú orðið á sama báti og hinir og tekur hiklaust undir með Pírötum og Samfylkingu gegn brottvísunum þeirra sem ekki eiga rétt á vernd á Íslandi.“
Undir lokin segist Einar ætla að skrifa aðra grein um „væntanlega útgjaldaspreningu“ hjá hinu opinbera vegna „óheftrar komu fólks sem ekki á rétt á vernd á Íslandi“. Þá segir hann að Ísland sé „í rauninni eina landið í heiminum“ sem er með „því sem næst opin landamæri fyrir þá sem þangað leita.“
„Það mun fyrr en varir enda með skelfingu, verði ekki breytt um stefnu.“