Ákært hefur verið í hrottafullu líkamsárásarmáli sem vakti þjóðarathygli í byrjun mars síðastliðnum. Ungur maður var þá ítrekað stunginn í bakið með skrúfjárni.
Móðir mannsins greindi frá árásinni í færslu á Facebook sem vakti mikla athygli en þar sagði hún að sonur hennar hafi verið þungt haldinn á sjúkrahúsi í kjölfar árásarinnar, en hann komst síðar úr lífshættu.
Móðirin gagnrýndi að viðstaddir hafi ekki komið syni hennar til aðstoðar, en dyraverðir á skemmtistað fylgdust með en gerðu ekkert og þurfti sonur hennar sjálfur að koma sér að sjúkrabíl og óska þar eftir hjálp.
RÚV greinir nú frá því að tveir menn hafi verið ákærðir vegna árásarinnar. Sá sem beitti skrúfjárninu er ákærður fyrir manndrápstilraun en hinn fyrir líkamsárás með því að kýla manninn ítrekað.
Eins og RÚV greinir frá eru hinir ákærðu 22 og 23 ára en hvorugur er íslenskur ríkisborgari.