Kínversk yfirvöld hafa í gegnum tíðina barist harkalega við það að bæla niður allar upplýsingar um atburði hins örlagaríka 4. júní 1989, þegar yfirvöld bældu niður stúdentamótmæli fyrir auknu lýðræði á Torgi hins himneska friðar í Peking með skriðdrekum og vopnuðum hermönnum. Óvíst er hve margir létu lífið en talið er að allt frá 180 og upp í rúmlega tíu þúsund manns hafi látið lífið þann dag.
Vinsæll kínverskur áhrifavaldur virðist hafa lent í ritskoðunarteymi ríkisstjórnarinnar. Streymi Li Qiagi á afmæli hamfaranna datt fyrirvaralaust út aðeins mínútum eftir að hann sýndi áhorfendum ís sem leit út eins og skriðdreki, með dekk í formi smákaka og fallbyssan í formi súkkulaðistangar, samkvæmt Fortune.
Í skilaboðum sem hann birti á Taobao-síðuna sína, sem er eins konar sölusíða, kenndi Li tækniörðugleikum um en síðan kom ekkert streymi á sunnudaginn. Skyndileg lok streymisins á föstudaginn skildu milljónir aðdáenda hans eftir glórulaus um hvað hafði gerst.
Flestir 170 milljóna fylgjenda Li á samfélagsmiðlinum Weibo fæddust eftir 1989 og tengdu ekki hvarfið við skriðdrekalaga ísinn. Ritskoðendur á vegum kínverskra yfirvalda eyða öllu tali og myndum sem tengjast morðunum á dögunum í kringum afmælið.
Li sjálfur fæddist árið 1992 og ekki er víst hvort hann hafi gert sér grein fyrir því að skriðdrekaísinn þætti vandamál. CNN greinir frá því að í spjallþráðum á Weibo hafi áhorfendur komist framhjá eldveggnum, sem kínverska ríkisstjórnin notar til að tryggja stjórn á upplýsingaflæði innan landsins, og komist að meiru um atburði ársins 1989 þegar þeir reyndu að komast til botns í hvarfi Li.
Svo virðist sem áform ritskoðenda kínverska ríkisins hafi mistekist svo harkalega að með því að bæla niður upplýsingar um mótmælin hafi þau í raun vakið meiri athygli á þeim meðal kínverskra netverja.