Karlmaður á fimmtugsaldri fannst látinn í Barðavogi í Reykjavík í gærkvöldi og er karlmaður á þrítugsaldri í haldi grunaður um verknaðinn, en talið er að andlátið hafi borðið að með saknæmum hætti. Lögregla segir að tengsl séu milli mannanna tveggja. Þetta kemur fram í frétt Vísis.
Mikill viðbúnaður lögreglu á vettvangi í gær og hafði lögreglan girt af götuna veggja vegna hússins í Barðavogi þar sem talið er að meint morð hafi verið framið. RÚV greindu frá því í morgun að talið sé að manninum hafi verið ráður baninn með barsmíðum og við það hafi barefli verið beitt.
Vísir ræddi við Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjón hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu og sagði hann einhver tengsl vera milli mannana tveggja. Lögregla vinnu nú að því að ræða við möguleg vitni í málinu, bæði fólk sem var á staðnum og eins aðila sem gætu haft upplýsingar um mögulegan aðdraganda.
Búist er við að lögregla fari fram á gæsluvarðhaldi yfir hinum handtekna í dag, en hann er grunaður um að hafa einn staðið að verki.
Uppfært: 12:34
Í nýrri frétt RÚV segist fréttastofa hafa heimildir fyrir að mennirnir tveir hafi verið nágrannar en ekki tengst að öðru leyti. Fréttastofa hafi jafnframt heimildir fyrir því að hinn látni sé fæddur árið 1975 og meintur gerandi 2001 og þeir hafi verið nágrannar í Barðavogi. Ekki sé talið að mennirnir tengist glæpastarfsemi. Talið sé að meintur gerandi hafi barið hinn látna til bana og er til rannsóknar hvort að vopn hafi komið við sögu.
Fréttablaðið greinir frá því með vísan til heimilda að lögregla hafi minnst tvívegis verið kölluð út að Barðavogi síðasta sólarhringinn áður en maðurinn fannst þar látinn og að atburðir gærdagsins hafi haft nokkurn aðdraganda.