Rétt fyrir klukkan 21 í gærkvöldi var bifreið ekið á hjólreiðamann í miðbænum. Að sögn vitna hafði ökumaður bifreiðarinnar verið að þenja bifreiðina og flauta áður en hann ók á reiðhjólamanninn. Reiðhjólamaðurinn datt við þetta í götuna og bifreiðin ók áfram, yfir hjólið og síðan af vettvangi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. Þar kemur fram að ekki sé vitað um áverka en hjólreiðamaðurinn hafi afþakkað sjúkrabíl.
Lögregla fékk um hálf níu í gærkvöldi tilkynningu um húsbrot og eignaspjöll í miðborginni. Þar er maður sagður hafa ruðst inn í íbúðarhúsnæði og lagt þar allt í rúst. Hann hafi brotið 2 rúður og svo yfirgefið íbúðina. Á meðan á þessu stóð var kona með börn í íbúðinni en náði hún að komast inn í herbergi og læsa að sér.
Sem endranær hafði lögregla afsipti af þó nokkrum ökumönnum sem eru grunaðir um akstur undir áhrifum áfengis og fíkniefna.
Í Breiðholti var tilkynnt um umferðarslys í gærkvöldi er maður datt af rafmagnshlaupahjóli. Var maðurinn töluvert kvalinn og gat lítið tjáð sig. Hann var fluttur með sjúkrabifreið á bráðadeild til aðhlynningar.
Rétt eftir klukkan tvö í nótt var tilkynnt um líkamsárás á bar í Breiðholti. Árásarþoli var fluttur með sjúkrabíl til aðhlynningar á bráðadeild og árásaraðili var handtekinn og vistaður í fangageymslu.