Athafnamaðurinn Sigmar Vilhjálmsson segir það ekki rétt að hann hafi viljað lækka laun með hugmynd sinni um að fyrstu átta tíma vakta yrðu alltaf á dagvinnutaxta. Óhætt er að segja að hugmyndin og vangaveltur Sigmars hafi fallið í grýttan jarðveg og fannst mörgum lítið til þeirra koma. Einn þeirra var Flosi Eiríksson, framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins, sem kallaði útspil Sigmars óvenjulega þvælu og að þetta væri ekki í fyrsta sinn sem athafnamaðurinn væri með hugmyndir um að lækka laun í veitinga- og ferðaþjónustugeiranum.
Í færslu á Facebook-síðu sinni vísar Sigmar því alfarið á bug að hafa ætlað að lækka laun með hugmynd sinni.
„Það var ekkert í minni hugmynd sem talaði um lækkun. Heldur frekar hækkun á dagvinnutaxta, þar sem ég sagði að hægt væri þá að einbeita sér að því (í komandi kjarasamningum). Ég hefði geta verið skýrari í þvi, vissulega. Hugmyndin byggir á því að jafna út eða amk lækka þennan mun sem er í álaginu en slíkt er í takt við það sem er á Norðurlöndum. Hvergi er hærri munur á þessu álagi en hér á Íslandi. Kjaraviðræðurnar í haust munu snúast um lágmarkslaun og grunnlaun (eins og alltaf). Hækkir þú grunnlaun og án þess að lækka mun á álagi (33% og 45% ) mun það hafa gríðarleg áhrif á ferðaþjónustu og ferðaþjónustutengda atvinnustarfsemi sem hefur síðan áhrif á allt i okkar samfelagi enda um að ræða stærstu atvinnugrein á Íslandi. Áhrifin birtast í verðhækkunum og verri samkeppnisstöðu Íslands sem áfangastaður,“ skrifar Sigmar.
Hann segir að í hugmyndavinnu vilji hann að öllum hugmyndum sé velt upp því í umræðum um fáránlegustu hugmyndirnar kvikna oft þær bestu.