Guðlaugur Helgi Valsson var handtekinn á miðvikudag fyrir að ryðjast í leyfisleysi inn til 85 ára gamallar konu í Klukkurima, en Guðlaugur býr í sama fjölbýlishúsi og konan.
Guðlaugur á langan brotaferil að baki, meðal annars fyrir innbrot og þjófnaði, en hann vakti landsathygli árið 2014 er hann skallaði níræða konu sem var nágranni hans. Gamalt myndskeið með viðtali við konuna má finna í spilara undir þessari frétt.
Samkvæmt heimildum DV er konan með neyðarhnapp hjá Securitas. Er vaktmenn Securitas mættu á vettvang sáu þeir að Guðlaugur var vopnaður dúkahníf og skrúfjárni. Komu þeir honum ekki út úr íbúðinni en hann staðhæfði að hann væri fjölskylduvinur konunnar. Hringdu Securitas-menn þá í lögreglu sem kom á vettvang og handtók Guðlaug. Hann var látinn laus að lokinni yfirheyrslu og mun hafa látið illa í fjölbýlishúsinu á eftir og barið á hurðir íbúða í húsinu.
Heimildir DV herma að 85 ára konan sem Guðlaugur ruddist inn til á miðvikudag hafi flúið húsnæði sitt og búi nú tímabundið annars staðar, af ótta við hann. Guðlaugur er sagður hafa bankað upp og hringt dyrabjöllu hjá konunni daginn eftir atvikið.
Íbúar í húsinu er sagðir krefjast þess að hann verði fjarlægður úr húsinu en Guðlaugur leigir hjá félagsbústöðum en flestir aðrir íbúar í húsinu búa í eignaríbúðum, þar á meðal konan sem hann er sagður hafa ruðst inn til. Er Guðlaugur meðal annars sakaður um ítrekaðan þjófnað úr geymslum íbúanna sem sagðir eru farnir að tæma geymslur sínar vegna hans. Íbúarnir segja Guðlaug stórhættulegan og eru margir lafhræddir við hann. Íbúarnir krefjast þess að Félagsbústaðir bregðist við kvörtunum þeirra og komi Guðlaugi út úr húsinu.
DV hafði sambandið lögreglu vegna málsins og fékk staðfest hjá Valgarði Valgarðssyni, aðalvarðstjóra hjá Lögreglustöð 4, að umrætt atvik hefði átt sér stað í Klukkurima og maður hefði verið handtekinn. Hann vildi ekki veita frekari upplýsingar um málið.
DV náði sambandi við Guðlaug sjálfan en áður en hann svaraði spurningum um atvikið á miðvikudag vildi hann ræða árásina frá 2014 og sagði:
„Ég var tekinn af lífi í fjölmiðlum 2014 fyrir að ráðast á gamla konu, sem var síðan ekki sagt alveg satt frá eins og það gerðist.“
DV bað Guðlaug um að fara yfir atburðarásina á miðvikudag. Hann sagði: „Ég var handtekinn inni í íbúð hjá mér og þá var mér sagt að ég hefði átt að hafa verið að fara þarna inn hjá þessari eldri konu. En það sem ég er sakaður um er ekki rétt. Ég hef oft verið að hjálpa þessari eldri konu, eða annað slagið. Ég gerði ekki neitt við þessa konu, ég snerti hana ekki, en mér er ekki trúað.“
Guðlaugur neitar því að hafa ruðst inn til konunnar. „Nei, hún bauð mér inn.“
Guðlaugur lagðist mjög gegn fréttaflutningi af málinu og sagði: „Ég er á fullu að reyna snúa lífi mínu og breyta því, ég mun bara hrynja í það ef það kemur svona frétt.“
Varðandi atvikið á miðvikudag virtist Guðlaugur draga í land varðandi það að um heimboð hefði verið að ræða því hann sagði: „Manni verður á. Ég vildi biðjast afsökunar á þessu en ég hef ekki fengið tækifæri til þess, ég hef ekki náð í konuna til að biðjast afsökunar.“
Varðandi óánægju annarra íbúa í húsinu en gömlu konunnar sagði Guðlaugur: „Ég veit ekkert hvað er verið að tala um mig.“
Sagðist hann vilja biðjast afsökunar á atvikinu og vinna áfram að því að koma sér á réttan kjöl í lífinu.