Landsréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjaness yfir Friðriki Hansen sem reyndi að flytja inn til landsins rúmlega einn og hálfan lítra af amfetamínbasa í spænskum vínflöskum.
Söluandvirði fíkniefnanna er um 20 milljónir króna.
Friðrik hefur ávallt neitað sök í málinu og segist hafa verið í góðri trú um að hann væri með vín meðferðis en ekki amfetamínbasa. Hins vegar barst óskýrð 300 þúsund króna greiðsla inn á reikning hans rétt fyrir heimför hans til Íslands, sem ætla má að hafi verið fyrir að flytja efnin til landsins.
Friðrik gaf mismunandi skýringar á því hvernig vínflöskurnar komust í hendur hans. Í einni skýrslu sagðist hann hafa fengið þær að gjöf í samkvæmi en í annarri að hann hafi unnið þær á hverfishátíð.
Héraðsdómur Reykjaness dæmdi Friðrik í tveggja ára fangelsi í fyrra. Landsréttur hefur nú staðfest þann dóm.