fbpx
Miðvikudagur 12.mars 2025
Fréttir

Drama í útgerðarfjölskyldu vegna meints fjárdráttar – Sonurinn fékk uppreisn æru í Landsrétti

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 3. júní 2022 21:00

Landsréttur. Mynd: Ernir

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Maður sem sakfelldur hafði verið í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir fjárdrátt var í dag sýknaður í Landsrétti.

Hinn ákærði var einn eigenda lítillar útgerðar, sem skiptist í tvö einkahlutafélög, en hann var þann 6. ágúst 2021 sakfelldur í Héraðsdómi Vestfjarða fyrir fjárdrátt og umboðssvik. Upphaf málsins var að systkini mannsins kærðu hann til lögreglu fyrir fjárdrátt. Tilefnið voru úttektir af reikningum félaganna sem systkinin töldu ekki vera til gögn fyrir í bókhaldi. Maðurinn staðhæfði fyrir dómi að um hafi verið að ræða vangoldin laun en hann starfaði sem framkvæmdastjóri hjá fjölskyldufyrirtækjunum á lágum launum.

Manninum var gefið að sök að hafa dregið sér samtals 1.727.588 af bankareikningum einkahlutafélaganna beggja til samans. Í fyrsta lagi var hann sagður hafa millifært rúmlega hálfa milljón af reikningi annars hlutafélagsins inn á eigin reikning.

Í öðru lagi er hann sagður tekið af reikningi hins hlutafélagsins samtals 18 sinnum, það voru ákaflega ólíkar úttektir. Í ákæru voru ranglega tilgreindar hraðbankaúttektir en í raun var þar um að ræða úttektir hjá bankagjaldkera. Var maðurinn sagður hafa tekið einu sinni út  hálfa milljón, einu sinni 150 þúsund, einu sinni 100 þúsund og einu sinni 30.000. Þá var hann sakaður um að hafa millifært hjá sér af reikningu fyrirtækisins yfir á eigin reikning annars vegar 140.000 og hins vegar 15 þúsund.

Síðan voru tilhæfulausar úttektir af korti fyrirtækisins, allt niður í rúmlega 500 króna viðskipti í Eymundsson, tæplega 6 þúsund krónur í Vínbúðinni, rúmlega fimm hundruð kall í nettó, rúmlega 12.000 króna úttekt í Elko og ýmislegt fleira.

Sem fyrr segir nemur fjárdrátturinn rúmlega 1,7 milljón króna.

Stofnaði fyrirtækin með föður sínum

Maðurinn var einn af eigendum félaganna og prókúruhafi í þeim báðum. Átti hann verulegan hlut í félögunum eins og segir í dómnum:

„Ákærði átti á því tímabili sem sakargiftir lúta að hlut í framangreindum einkahlutafélögum ásamt öðrum. Faðir hans lést um mitt ár 2019 en ákærði bar meðal
annars um það fyrir dómi að þeir feðgar hefðu stofnað félögin. Faðir hans hafði setið í óskiptu búi og lauk skiptum búsins að endingu í opinberum skiptum með frumvarpi sem samþykkt var á skiptafundi 18. desember 2020. Samkvæmt upplýsingum með ársreikningi B ehf. vegna rekstrarársins 2019 átti hvor þeirra feðga 47,5% í félaginu og átti C 5% hlut á móti þeim. Samkvæmt upplýsingum með ársreikningi A ehf. sama rekstrarár átti ákærði helming hluta félagsins, B ehf. átti 40% hlutanna og D, systir ákærða, átti 10% þeirra.

Tilgangi beggja félaga er svo lýst í vottorðum fyrirtækjaskrár, frá 30. nóvember 2020, sem útgerð, vinnsla sjávarfangs, verslun, inn- og útflutningur, rekstur fasteigna og skyldur rekstur.

Í vottorði B ehf. var ákærði tilgreindur sem stjórnarformaður, framkvæmdastjóri og prókúruhafi félagsins, en E, systir hans, sem varamaður í stjórn. Samkvæmt vottorði A ehf. var faðir þeirra, þá látinn, tilgreindur stjórnarformaður, en ákærði sem meðstjórnandi og framkvæmdastjóri. Þar eru ákærði og faðir hans tilgreindir prókúruhafar og D sem varamaður í stjórn. F er á vottorðunum sagður skoðunarmaður beggja félaga. Þessar upplýsingar úr vottorðum fyrirtækjaskrár eru að því er aðkomu ákærða að félögunum varðar, þær sömu og samkvæmt fyrrgreindum upplýsingum með ársreikningum þeirra vegna rekstrarársins 2019.“

Ég á þetta, ég má þetta?

Systir hans bar að er hún fann að úttektum hans hafi hann brugðist illa við, sagt að henni kæmi þetta ekki við því hann væri að taka peninga út úr eigin fyrirtæki. Um þetta segir í dómnum:

„Á meðal þess sem D, systir ákærða, greindi frá við aðalmeðferðina 9. júlí síðastliðinn var að eftir andlát föður hennar og ákærða hafi hún séð um að greiða reikninga fyrir fyrirtækin. Fyrir þann tíma hafi faðir þeirra gert það sjálfur, en heimabanki hafi ekki verið stofnaður fyrr en eftir andlát hans. Hún hafi svo tekið eftir því að teknir hafi verið peningar út af bankareikningi A ehf. sem engir reikningar eða nótur hafi verið fyrir. Hún hafi spurt bróður sinn um það, því að hún hafi vitað að það væri bannað að taka út peninga til eigin nota, en hann hafi bara reiðst henni og sagt að henni kæmi það ekki við, að hann væri að taka peninga úr hans eigin fyrirtæki.“

Ákæruvaldið benti hins vegar á að maðurinn hefði ekki heimild til að fara með fjármuni fyrirtækjanna að vild þar sem um væru að ræða sjálfstæðar lögpersónur sem lúti reglum laga um einkahlutafélög. Auk þess var hann ekki einn eigandi félaganna.

Þessu samsinnti Héraðsdómur á sínum tíma og dæmdi manninn í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

U-beygja í Landsrétti

Landsréttur sneri við dómi héraðsdóms í málinu og sýknaði manninn af ákæru um fjárdrátt. Byggði Landsréttur á því að maðurinn hefði sýnt fram á að hann ætti kröfu í fjölskyldufyrirtækið vegna uppgjörs eftir sölu á skipi. Segir jafnframt að lögregla hafi ekki aflað gagna úr bókhaldi fyrirtækisins til að sannreyna hvort maðurinn ætti kröfu á það.

Var það niðurstaða Landsréttar að ákæruvaldinu hefði ekki tekist að færa sönnur á að maðurinn hefði gerst sekur um fjárdrátt og var hann sýknaður af ákærunni.

Dóma Landsréttar og héraðsdóms má lesa hér

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 19 klukkutímum

Ögmundur sýnir hvernig Háskóli Íslands hafði fé af sjúkum manni – „1.060.000 kr. horfnar“

Ögmundur sýnir hvernig Háskóli Íslands hafði fé af sjúkum manni – „1.060.000 kr. horfnar“
Fréttir
Fyrir 20 klukkutímum

Jón Steinar gagnrýnir forseta Hæstaréttar og vill fækka dómurum – „Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið“

Jón Steinar gagnrýnir forseta Hæstaréttar og vill fækka dómurum – „Þetta er að mínum dómi forkastanlegt sjónarmið“