fbpx
Þriðjudagur 11.mars 2025
Fréttir

Ævintýralegt tryggingamál – Meint bótasvik, dularfull tjónstilkynning og grunsamlegt óhapp

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 2. júní 2022 19:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst ekki á kröfu manns um að hann ætti rétt á greiðslu úr tryggingu bifreiðar hjá Sjóvá í kjölfar bílslyss sem átti sér stað árið 2016, en dómurum þótti ekki sannað að slysið hefði átt sér stað. Ýmislegt áhugavert kemur í ljós við lestur dómsins. Svo sem að um tíma var í gangi lögreglurannsókn sem hófst að beiðni Sjóvá um meint tryggingasvindl, þar sem umræddur maður kom við sögu. 

Málið varðaði bílslys sem átti að hafa gerst árið 2016. Þá barst Sjóvá tilkynning um að maður hefði lent í bílslysi. Umræddur bíll, af gerðinni Volkswagen Jetta, var þó í eigu annars manns, og var tryggð hjá Sjóvá.

Lögregla var ekki kölluð og slysstað og engin vitni voru að því. Tilkynningin um slysið var send í nafni eiganda bifreiðarinnar, en hún var send með rafrænum hætti. Þar var atvikum lýst svo að ökumaðurinn sem í slysinu lenti hafi verið að snúa bílnum við á bílastæði og svo er hann ók af stað inn á aðalbraut hafi hann ekki litið til hliðar heldur ekið bílnum þvert í veg fyrir annan bíl. Ökumaður hinnar bifreiðarinnar náði ekki að sveigja úr vegi og hafnaði á hægri hlið bílsins. Áreksturinn hafi verið harður og báðar bifreiðar stórskemmst. Líkamsmeiðsl hefðu orðið á fólki og voru ökumenn beggja bifreiðar nefndir sem tjónþolar á tilkynningu.

Sjóvá svaraði tilkynningunni og greindi frá því að ökumenn þyrftu að skila skriflegri tjónstilkynningu. Sú tilkynning barst svo og þar mátti finna undirritun frá báðum ökumönnum.

Slys einum degi eftir að bifreið var nýskráð til landsins

Volkswagen bifreiðin hafði verið nýskráð til landsins í janúar 2016, þá í nafni einkahlutafélags, en sama dag var bifreiðin skráð yfir á þann aðila sem átti bílinn þegar slysið átti sér stað. Daginn eftir lenti bifreiðin í árekstrinum.

Tjónið á bílnum var metið altjón og keypti Sjóvá bifreiðina á markaðsvirði hennar á tjónsdegi og greiddi rúmar 3 milljónir til eigandans fimm dögum eftir slysið.

Í máli þessu reyndi á bætur fyrir varanlegan miska hjá ökumanninum, og fór hann fram á rúmlega 16 milljónir í vátryggingarbætur. En þá flækjast málin.

Í dómi er rakið að Sjóvá hafi í júlí 2017 lagt fram kæru hjá lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu vegna sjö atvika þar sem 10 nafngreindir einstaklinga höfðu aðkomu og tengdust bótakröfum sem lagðar höfðu verið fram við Sjóvá vegna umferðaróhappa, en bótakröfur námu um 100 milljónum króna.

Milli þessara aðila væru tengsl og högðu öll óhöppin átt sér stað á „fáförnum vegum í útjaðri höfuðborgarinnar.“

Taldi Sjóvá að óhöppin hefðu verið sviðsett til að svíkja út fé. Meðal þeirra nafna sem þar voru lögð fram var nafn ökumannsins í máli þessu.

Vinargreiði og reiðufé

Þá kemur til sögu eigandi bifreiðarinnar. Hann lagði fram kæru til lögreglu í janúar 2019 þar sem hann sagði að rithönd hans á áðurnefnda tjónstilkynningu hafi verið fölsuð. Eigandinn sagðist hafa tekið við tryggingafé vegna bifreiðarinnar en ekki verið kunnugt um að nafn hans hefði verið notað á tjónstilkynningu fyrr en honum var stefnt í þessu máli. Hann benti á að símanúmer og netfang sem voru á tilkynningunni gefin upp sem hans væri ekki rétt.

Við rannsókn lögreglu á meintu bótasvikunum hafði eigandinn stöðu sakbornings, sem og ökumaður Volkswagen bifreiðarinnar en einnig ökumaður hinnar bifreiðarinnar.

Hann sagði að kunningi hans hefði verið að leið í gjaldþrot og hafi beðið hann, í greiðaskyni, um að skrá bifreiðina á sig. Kunninginn hafi svo látið hann vita af tjóninu og sagt honum að bifreiðin yrði greidd út á reikning hans og bað kunninginn eigandann að taka peningana út í reiðufé og afhenda sér, sem eigandinn gerði. Þetta hafi verið vinargreiði. Hann hafi ekki komið nálægt kaupunum á bifreiðinni og engan tjónaskýrslu fyllt út og taldi að kunninginn hefði falsað þar undirskrift hans.

Frásagnir á reiki

Ökumaður Volkswagensins gaf skýrslu hjá lögreglu þar sem hann lýsti atvikum svo að hann hafi verið að prufukeyra bifreiðina þegar annarri bifreið var ekið á hann. Fyrst hélt hann því fram að hann hefði hitt eiganda bifreiðarinnar og fengið bílinn hjá honum en síðar sagði hann að bíllinn hefði verið á bílasölu. Kannaðist ökumaðurinn ekki heldur við tjónstilkynninguna eða undirritun sína þar.

Ökumaður hinnar bifreiðarinnar var einnig boðaður til skýrslutöku. Hann sagði að hann hafi villst af leið og að bifreið hafi verið ekið fyrir hann. Eitthvað fólk hafi komið á vettvang, en hann þekkti ekki deili á þeim. Hann hafi aldrei séð ökumann Volkswagensins og taldi að farþegi hafi verið í bílnum. Hann hefði gert tjónaskýrslu á staðnum með ljóshærðum manni og sá hefði tjáð honum að ökumaður Volkswagensins hefði farið af vettvangi „alblóðugur“.  Fyrir dómi neitaði ökumaður hinnar bifreiðarinnar að þekkja hinn ökumanninn eða áðurnefndan kunningja eiganda Volkswagensins, þó hefði kunninginn bent honum á lögmann.

Lögregla sagði málið með ólíkindum

Lögregla hætti svo rannsókn í mars 2021 þar sem allir sakborningar höfðu neitað eindregið sökum og við fátt annað að styðja en framburði aðila. Minnti lögregla þó á, í bréfi til Sjóvá, að til væru úrræði samkvæmt einkamálaréttarfari.

„Hins vegar er athygli vakin á úrræðum einkamálaréttarins og þeim sönnunarreglum sem þar gilda enda óneitanlega talsverður ólíkindablær sem hvilir yfir tilurð, aðdraganda og sögðum afleiðingum meintra umferðaróhappanna sem flest hver eiga sér stað utan alfaraleiða og eru afgreidd oft á tíðum með óhefðbundnum hætti án aðkomu lögreglu sem þar með hefur augljóslega takmarkað alla möguleika á öflun framangreindra sönnunargagna.“ 

Í bréfinu sagði enn fremur að ekki liggi fyrir handbærar myndir af ökutækjunum eða bíltæknirannsóknir líkt og venja sé í svona málum.

„Náin tengsl viðkomandi sakborninga í milli og ekki síst við ætlaðan höfuðpaur málsins, F [kunninginn], eru ekki til þess fallin að auka tiltrú á frásögn hinna kærðu.“ 

Sjóvá kærði þessa ákvörðun til ríkissaksóknara, sem þó staðfesti ákvörðun lögreglustjóra en tók fram í rökstuðningi að margt í málinu væri með ólíkindum, svo sem tengsl aðila, staðsetning slysanna og frásagnir aðila.

Í dóminum kemur fram að Sjóvá lét gera útreikning á árekstrinum sem bent hafi til þess að Volkswagen bifreiðin hafi verið kyrrstæð þegar áreksturinn átti sér stað, en Sjóvá taldi það styðja við þann grun að um tryggingasvik væri að ræða.

Dómarar töldu ósannað að slys hafi átt sér stað

Dómarar í málinu litu til þess að hvorki eigandi né ökumaður Volkswagen bifreiðarinnar könnuðust við að hafa undirritað tjónstilkynningu. Eins væri ósamræmi í frásögnum ökumanns um tildrög slyssins. Hann hafi í samtali við lækni sagt að hann hefði verið að aka vini sínum til vinnu á bifreið vinarins þegar hann var að beygja til vinstri á biðskyldu þegar honum lenti saman við bifreið úr sömu átt. Eins hafi ökumaður ekki munað hvaða tegund bíls hann ók. Ökumaður hafi ýmist sagt að ekið hafi verið á vinstri hlið bílsins, eða þá hægri.

Ökumaður lagði heldur ekki fram upplýsingar úr sjúkraskrá, þrátt fyrir áskoranir Sjóvá um slíkt.

Eins hafi ökumaður hinnar bifreiðarinnar ekki kannast við tjónstilkynningu sem send var í hans nafni og sömuleiðis hafi hans framburður verið mikið á reiki. Ökumaðurinn þarf því að greiða milljón í málskostnað til Sjóvá og 800 þús í málskostnað fyrir eigandann.

Dómurinn í heild sinni

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 18 klukkutímum

Varar Trump við – „Mistök af svakalegri stærðargráðu“

Varar Trump við – „Mistök af svakalegri stærðargráðu“
Fréttir
Fyrir 21 klukkutímum

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri

„Kvittana-veggur“ Musk átti að dásama afrek hans – Nú hverfa kvittanirnar ein af annarri
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Apple bætir við átta nýjum tjáknum – „Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár“

Apple bætir við átta nýjum tjáknum – „Þetta er besta tjáknið sem þeir hafa bætt við í mörg ár“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Ferðamenn flúðu lúxushús Skúla Mogensen á hlaupum vegna draugagangs – „We ran for our lives“

Ferðamenn flúðu lúxushús Skúla Mogensen á hlaupum vegna draugagangs – „We ran for our lives“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar

Rubio og Musk hnakkrifust í Hvíta húsinu – Trump reynir að breiða yfir deilurnar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi

Jörfi opnar nýja fagverslun í Grænum iðngörðum á Akranesi