Karlmaður hefur verið dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir að hafa nauðgað konu í janúar árið 2019. Dómurinn féll í Héraðsdómi Reykjaness þann 26. maí en var birtur fyrst í dag.
Brotið átti sér stað aðfaranótt 26. janúar árið 2019. Konan og maðurinn hittust er þau voru að skemmta sér í miðbænum og tók konan í kjölfarið leigubíl heim með manninum. Lýsti hún aðstæðum sem svo að hún hafi ekki kunnað við að neita heimboðinu þar sem maðurinn borgaði fyrir leigubílinn.
Þegar heim til mannsins var komið byrjaði hann fljótlega að leita á konuna og lét ekki af því þó að konan hefði ítrekað sagt honum að hún hefði ekki áhuga. Maðurinn hefði svo rifið hana úr fötum, þvingað hana til munnmaka og er hún reyndi að komast frá honum hafi hann fleygt henni á rúmið og nauðgað henni.
Konan lýsti því hvernig hún hafi frosið af skelfingu og hugsað um það eitt að reyna komast hjá sársauka.
Í dómi er rakið hvernig konan lýsti brotinu við rannsóknarlögreglumann á Neyðarmóttöku, en þar segir:
„Hann hefði síðan reynt að kyssa brotaþola og koma við hana en brotaþoli neitað og reynt að færa sig frá ákærða. Hann hefði þá tekið hana úr kjólnum, káfað á kynfærum hennar og brjóstum, sest ofan á brotaþola og neytt hana til munnmaka. Brotaþoli hefði fundið skjálfta í fótum og beðið ákærða að hætta. Hann hefði þá hætt í smá stund og leyft brotaþola að setjast upp, en um leið og hún hefði ætlað að fara hefði hann ýtt henni niður á rúmið að nýju og sett fingur í leggöng hennar. hann hefði síðan sussað á hana, sagt „it’s okey“ og gert sig líklegan til að setja getnaðarlim í endaþarm brotaþola.“
Konan hafi óttast sársauka og því beðið manninn að nauðga henni frekar um leggöng. Hún hafi þó reynt að biðja hann um að hætta. Eftir að maðurinn hafði lokið sér af komst konan frá honum og hafði samband við lögreglu.
Maðurinn neitaði alfarið sök en frásögn hans tók töluverðum breytingum í gegnum rannsókn og rekstur málsins.
Dómari taldi að konan hefði verið trúverðug í frásögn sinni en það sama væri ekki hægt að segja um manninn. Hann hafi hvorki verið stöðugur né skýr í framburði sínum bæði hjá lögreglu og fyrir dómi. Hafi hann í samtali við lögreglu sagt að samfarir hefðu átt sér stað með samþykki, en svo fyrir dómi hélt hann því fram að hann hefði ekki getað stundað kynlíf þar sem hann hafi ekki náð að fá holdris. Hafi maðurinn einnig haldið því fram að konan hafi látið vel að honum í leigubíl, en það samræmist ekki frásögn leigubílstjóra.
Dómari taldi sannað að maðurinn hefði nauðgað konunni, eða eins og það er orðað í niðurstöðu: „ákærði hafi neytt brotaþola til munnmaka og samfara um leggöng án þess að afla samþykkis hennar og þrátt fyrir að hún hafi beðið hann að hætta og reynt að víkja sér undan. Ákærða hafi þannig mátt vera ljóst að brotaþoli var samförunum ekki samþykk og að þær væru gegn vilja hennar.“
Taldi dómari að það breytti engu þó að engir áverkar hafi fundist á brotaþola, enda hafi læknir borið vitni fyrir dómi en hann sagði að þar sem konan var á blæðingum hafi það geta virkað eins og sleipiefni og komið í veg fyrir áverka. En eins leit dómari til þess að konan upplifði sig vanmáttuga gagnvart manninum og því frosið í stað þess að streitast á móti.
Maðurinn var dæmdur í 2 ára óskilorðsbundið fangelsi og þarf hann að greiða konunni 1,8 milljónir í miskabætur.