Sérfræðingur í refsirétti og mati á sönnunargögnum telur nær öruggt að lögregla gruni manndráp í máli Kristins Hauks Jóhannessonar sem var talinn hafa látist í bílslysi er leigubíll fór út af Óshlíðarvegi og valt niður Óshlíð, í september árið 1973. Þann 27. maí síðastliðinn lét Lögreglustjórinn á Vestfjörðum grafa upp líkamsleifar Kristins heitins og munu vísindamenn reyna að leggja mat á hvort áverkar hans hafi í rauninni hlotist af bílveltu eða með öðrum hætti.
DV ræddi við Jón Þór Ólason, hæstaréttarlögmann og lektor í refsirétti, en hann telur augljóst vegna fyrningarákvæða að málið sé nú rannsakað sem hugsanlegt manndráp.
„Ég hef ekki lögregluskýrslur í þessu máli en hef bara heyrt af því örstutt. Þetta mál er að vissu leyti einstakt. Við getum sagt að það er þekkt víða að ef ný sönnunargögn eða nýjar tæknileiðir við rannsóknir komi fram að þá geti það leitt til þess að mál séu tekin upp að nýju. Frá Bandaríkjunum höfum við mörg dæmi um að dauðadæmdir menn hafi verið sýknaðir í ljósi nýrra sönnunargagna, þ.e. niðurstaðna í rannsóknum lífsýna með tækni sem ekki var til staðar þegar afbrotið átti sér stað.“
Jón Þór þekkir aðeins eitt dæmi um að líkamsleifar hafi verið grafnar upp hér á landi vegna endurupptöku rannsóknar á máli. Árið 2008 var fjölskyldufaðir í Mosfellsbæ sakfelldur eftir að hafa greitt þar starfsmanni kjaftshögg sem leiddi til þess að maðurinn lést. Sakborningurinn fékk því framgengt að líkamsleifar hins látna voru grafnar upp til að rannsaka hvort líkamlegt ástand hans hefði getað leitt til þess að hann lést af högginu, til að brotið yrði skilgreint sem manndráp af gáleysi.
Jón Þór bendir á að fyrningarákvæði nánast útiloki annað en Óshlíðarmálið sé tekið upp vegna gruns um manndráp. Mál þar sem brot er fyrnt eru ekki tekin til rannsóknar, svo einfalt er það. „Þau brot sem eru ófyrnanleg eru þau sem varða ævilöngu fangelsi. Það eru manndráp, uppreisn gegn íslenska ríkinu og það geta verið brennubrot.“
Hinu tvenna síðarnefnda getur ekki verið til að dreifa í þessu máli og því kemur grunur um manndráp eingöngu til greina. „Eins ég sagði áður þá hef ég ekki gögn málsins en út frá lögfræðinni myndi ég ætla að rannsóknartilefnið hljóti að vera grunur um að andlát hafi borið að þeim því sem kallað er voveiflegum hætti, þ.e. manndrápi. Þá er rannsakað með tilliti til 211. greinar hegningarlega, það eru engin önnur ákvæði sem koma til greina.“
211. grein hegningarlaganna er einföld og hljóðar svo:
„Hver, sem sviptir annan mann lífi, skal sæta fangelsi, ekki skemur en 5 ár, eða ævilangt.“
Tveir aðrir voru sagðir hafa verið í bílnum með Kristni. Báðir aðilarnir eru á lífi. Annar er leigubílstjórinn Höskuldur Guðmundsson, sem núna er 86 ára gamall og býr á Ísafirði. Hann hefur látið hafa eftir sér í fjölmiðlum að hann undrist mjög rannsóknina og telji hana vera furðulegt uppátæki, einkamál lögreglustjórans á Vestfjörðum.
Kona sat við hliðina á Höskuldi í framsæti bílsins en samkvæmt frásögn Höskuldar lá Kristinn heitinn í aftursætinu og var mjög drukkinn. Höskuldur og konan sluppu lítið meidd en Kristinn lét lífið í slysinu. Svo virðist sem ættingjar hans telji að hann hafi ekki látist af slysförum heldur með öðrum hætti. Lögregla virðist með athöfnum sínum taka undir þær grunsemdir. Þá vaknar sú spurning hvort átök hafi orðið milli Kristins og fólksins.
Konan sem sat í framsætinu er tveimur árum eldri en Kristinn heitinn og hefur því verið 21 árs þegar atburðurinn varð. Hún er sjötug í dag og býr á höfuðborgarsvæðinu. Konan hefur ekki gefið DV kost á að ná sambandi við sig.
Rétt er að halda því til haga að grunur lögreglu um mögulegt manndráp er engan veginn sönnun um að það hafi átt sér stað.