Tveir einstaklingar voru handteknir í nótt og gistu í fangageymslu samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni. Annar aðilinn var handtekinn fyrir sölu á fíkniefnum en nokkurt magn fíkniefna og fjármuna fannst í bifreið hans.
Hinn aðilinn var handtekinn eftir að hafa gengið berserksgang við hótel í miðborginni. Samkvæmt lögreglunni veittist hann að fólki og farartækjum og „hafði að engu fyrirmæli um að sitja á strák sínum þegar lögreglu bar að garði.“
Lögreglan segir að það hafi því ekki verið neitt annað í stöðunni en að handtaka viðkomandi og leyfa honum að hugsa sinn gang í fangageymslu. Lögreglan segir að aðilinn verði í fangageymslunni „þar til honum rennur mesti vígamóðurinn.“
„Í atganginum olli berserkurinn skemmdum á lögreglubifreið og bíður hans það ánægjulega hlutskipti að bæta það tjón,“ segir lögreglan svo.
Þá voru þrír ökumenn handteknir og kærðir fyrir ölvun við akstur í nótt og tilkynnt var snemma í morgun um yfirstandandi innbrot í söluturn. Viðkomandi yfirgaf vettvang áður en lögregla mætti á staðinn en ekki er vitað hvort hann hafði einhver verðmæti á brott með sér.