Í tilkynningu frá Gazprom segir að lokað hafi verið að fullu fyrir gasstreymið til Hollands vegna þess að greiðsla hafi ekki verið innt af hendi í rúblum.
Hollendingar hafa fengið um 15% af gasi sínu frá Rússlandi en GasTerra segir að málið hafi engin áhrif á orkuöryggi því búið sé að tryggja gas frá öðrum ríkjum í stað þess rússneska.
Gazprom hefur að undanförnu krafist þess að fá greitt í rúblum í stað evra eins og samningar fyrirtækisins um gassölu til Evrópu kveða á um.
Ekki er útilokað að Gazprom loki fyrir gasstreymi til Danmerkur á morgun en danska orkufyrirtækið Ørsted neitar að greiða fyrir gasið með rúblum. Gazprom hefur gefið fyrirtækinu frest út daginn í dag til að skipta um skoðun. Dönsk yfirvöld reikna ekki með að það muni hafa alvarleg áhrif þótt Rússar loki fyrir gasstreymið.