Ein af tíu mæðrum sem hefur sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna vinnubragða sálfræðinga í forsjármálum segir að sálfræðingurinn sem var í hlutverki sérfróðs meðdómanda í hennar máli hafi gert lítið úr vanrækslu og barnaverndarlagabrotum föður í garð barnsins. Þrátt fyrir að gögn hafi verið lögð fram um ofbeldi, svo sem lögregluskýrslur, hafi verið komist að þeirri niðurstöðu að samband foreldra hafi verið „stormasamt“ og ekki hægt að skera úr um hver beri ábyrgð. Þá hafi verið dæmd sameiginleg forsjá þrátt fyrir að forsjárhæfni móður hafi verið mun betri en föður samkvæmt mati.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá um miðjan mánuðinn en þar kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson.
DV hefur óskað eftir viðbrögðum frá þeim öllum þremur – Guðrúnu, Rögnu og Gunnars Hrafns – vegna umræddra kvartana en engin svör hafa borist.
Afrit af þessum tíu kvörtunum fylgdu tilkynningunni frá Líf á ofbeldis sem eru baráttusamtöku mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengnis- og forsjármálum.
Sjá einnig: Þetta eru spurningarnar sem matsmennirnir þrír neita að svara
Kvörtunin sem greint er frá hér að ofan er frá Melkorku Þórhallsdóttur vegna starfa Guðrúnar Oddsdóttur í forsjármáli sem sérfróður meðdómandi og var send til embættis landlæknis þann 19. apríl 2022.
Þar kemur fram að Guðrún hafi verið sá dómari sem spurði Melkorku spurninga á meðan hinir tveir hafi lítið sagt.
„… ég hafði á tilfinningunni að hún hefði mest áhrif á dómsniðurstöðuna. Ég áttaði mig fljótlega á því að ekki var hlustað á mig, né voru frásagnir mínar taldar marktækar. Ég sagði frá tveimur mismunandi atvikum þar sem barnsfaðir hafði ráðist á mig og barnið sem þá var í kringum tveggja ára aldur – atvik sem voru alvarleg og tilkynnt til lõgreglu. Það var ekki hlustað og þessi atvik ekki talin skipta máli.“
Guðrún Oddsdóttir sálfræðingur kom að dómsmáli mínu þann 11. febrúar 2020. Aðrir dómarar voru Bogi Hjálmtýsson & Ástríður Grímsdóttir. Málið mitt var um forsjá og umgengni – án nokkurs vafa erfitt og einstaklega viðkvæmt mál.
Ég finn mig knúna til að leggja fram formlega kvörtun vegna aðkomu Guðrúnar Oddsdóttur í málinu mínu. Guðrún var sá dómari sem spurði mig spurninga, meðan hinir tveir sögðu lítið, og ég hafði á tilfinningunni að hún hefði mest áhrif á dómsniðurstöðuna. Ég áttaði mig fljótlega á því að ekki var hlustað á mig, né voru frásagnir mínar taldar marktækar. Ég sagði frá tveimur mismunandi atvikum þar sem barnsfaðir hafði ráðist á mig og barnið sem þá var í kringum tveggja ára aldur – atvik sem voru alvarleg og tilkynnt til lõgreglu. Það var ekki hlustað og þessi atvik ekki talin skipta máli. Í staðinn spurði Guðrún mig, hvort ég “gengi út frá því að ég ætti barnið ein”. Lítið var gert úr vanrækslu og barnaverndarlagabrotum fõður í garð barnsins. Tel ég þessa spurningu Guðrúnar undarlega, í ljósi þess að börn eru ekki eingetin og ætti að vera mér fyllilega ljóst að barnsfaðir minn er faðir barnsins fyrst ég sé í forsjármáli við hann. Þessi spurning um eignarétt yfir barni er einstaklega óviðeigandi þegar um er að ræða ofbeldi gegn barni.
Bogi Hjálmtýsson hafði àrið 2019 dæmt um umgengni við föðurinn, undir eftirliti, sem segir mér að Bogi sá þá ástæðu til að verja barnið fyrir hugsanlegu ofbeldi. Eitthvað breyttist þegar Guðrún kom að málinu sem dómari. Guðrún Oddsdóttir gerði mig að skotmarki og niðurlægði mig ítrekað í dómssal á meðan barnsfaðir minn, sem hefur langa sögu um ofbeldi gegn mér og barninu og braut gegn okkur í óteljandi skipti, var settur á stall. Ég talaði um ofbeldi fyrir tómum eyrum í dómssal og fann verulega fyrir fjandsamlegu viðhorfi Guðrúnar til mín. Ég talaði um hættuna sem stafaði af barnsföður, en ekki var hlustað.
Út frá mati Valgerðar Magnúsdóttur sálfræðings og matsmanns, var og er forsjárhæfni mín mun betri en föður. Þrátt fyrir það var dæmd sameiginlega forsjá. Gögn voru lögð fram fyrir dóm um ofbeldið, svo sem lögregluskýrslur og dagbók lögreglu, en samt er komist að þeirri niðurstöðu að sambandið hafi verið “stormasamt” og ekki hægt að skera úr um hver beri ábyrgð á því. Einnig að ég hafi tálmað umgengni, sem samrýmist ekki þeirri frásögn minni um nauðsyn þess að vernda barnið, auk gagna um ofbeldið. Er matsgerðin og niðurstaða hennar þar með alfarið hunsuð, á þeim grunni að ég hafi tálmað umgengni. Dómurinn í heild sinni er í mikilli þversögn og ruglingslegur. Þar sem Guðrún Oddsdóttir starfar sem sálfræðingur tel ég rétt að kvarta yfir hennar störfum til embættis landlæknis.
Sjá einnig: Helga Sif segir matsmann hafa gaslýst dóttur sína – „Hvað er eiginlega að Helgu?”- Fjórða kvörtunin af tíu