Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt þrítugan aðsópsmikinn verkfæraþjóf í 18 mánaða skilorðsbundið fangelsi til 5 ára fyrir afbrot sín. Maðurinn var ákærður fyrir alls 28 þjófnaðarbrot á tímabilinu 19. september 2021 til 6. mars 2022. Í flestum tilvikum braust maðurinn inn á byggingarstaði eða nýbyggingar og hafði á brot verkfæri og ýmiskonar byggingarvörur að verðmæti samtals ríflega 43 milljónum króna.
Að auki var maðurinn sakfelldur fyrir nytjastuld á bifreið og brot gegn umferðarlögum, lyfjalögum og fíkniefnalöggjöf.
Maðurinn játaði brot sín greiðlega og í dómsorði kemur fram að megnið af þýfinu hafi skilað sér aftur til eigenda sinna. Sá dæmdi á talsverðan brotaferil að baki og hefur frá árinu 2009 hlotið þrjá fangelsisdóma fyrir ýmis brot, þjófnaði og fíkniefnalagabrot.
Í dómnum kemur fram að maðurinn hafi um árabil glímt við fíkniefnavanda. Eftir því sem næst verður komið hélt hann sig þó á beinu brautinni frá árinu 2014 til haustsins 2021 þegar áðurnefnd afbrotahrina hófst en afbrotin voru fyrst og fremst til þess að fjármagna neyslu hans.