Anton Siluanov, fjármálaráðherra, skýrði frá þessu í sjónvarpsviðtali á föstudaginn. Hann sagði að ríkisstjórnin hafi í hyggju að nota þessa peninga frekar en að leggja þá til hliðar.
Meðal þeirra sem munu fá hluta af þeim eru ellilífeyrisþegar, barnafjölskyldur og herinn til að fjármagna stríðið í Úkraínu.
Vesturlönd hafa gripið til víðtækra refsiaðgerða gegn Rússum vegna innrásarinnar í Úkraínu en þær refsiaðgerðir hafa ekki enn haft nein markverð áhrif á útflutning þeirra á olíu og gasi.
Vladímír Pútín, Rússlandsforseti, gerði nýlega grín að refsiaðgerðunum og sagði að „ruglingslegar aðgerðir“ Evrópu hafi aukið tekjur Rússa af sölu á olíu og gasi.
Nokkrum vikum eftir innrásina bönnuðu bandarísk stjórnvöld allan innflutning á olíu og gasi frá Rússlandi. Evrópusambandið hefur viðrað hugmyndir um svipað bann en illa hefur gengið að ná samstöðu innan sambandsins um það.
BBC segir að bann við innflutningi á rússneskri olíu og gasi muni hafa meiri afleiðingar fyrir Evrópu en Rússland því aðeins sjö prósent af olíuinnflutningi Bandaríkjanna er frá Rússlandi en í Evrópu kemur fjórðungur olíunnar frá Rússlandi.