Lögreglan á Vestfjörðum gróf á föstudaginn upp líkamsleifar úr kirkjugarði á Vestfjörðum. Um er að ræða jarðneskar leifar einstaklings sem lést af slysförum fyrir nokkrum áratugum síðan. Þetta kemur fram í tilkynningu lögreglu en þar segir að lögreglustjórinn hafi áður, með vitund og samþykki nánustu aðstandenda hins látna, fengið dómsúrskurð til þessara aðgerða.
„Hópur lögreglumanna af Vestfjörðum, ásamt tveimur tæknideildarmönnum lögreglunnar á Höfuðborgarsvæðinu, auk réttarlæknis og aðstoðarmanns hans, unnu við uppgröftinn,“ segir í tilkynningu. Þar segir að aðdragandi aðgerðarinnar hafi verið sá að lögreglunni hafi borist ábending um að umrætt slysaatvik hafi ekki verið upplýst nægjanlega á sínum tíma.
„Þrátt fyrir að langur tími sé liðinn eru taldar líkur á því að hægt sé að upplýsa nánar um tildrög atviksins sem um ræðir.
Líkamsleifarnar eru nú til rannsóknar hjá réttarlækni og beðið er niðurstöðu þeirrar vinnu. Óvíst er hversu langan tíma þessi réttarlæknisfræðilega rannsókn tekur og ótímabært að veita frekari upplýsingar um mál þetta.“