Ramzan Kadyrov, sem er handbendi Vladímír Pútíns Rússlandsforseta, hótar nú árás á Pólland vegna stuðnings Pólverja við Úkraínu.
Kadyrov ræður ríkjum í Téténíu í skjóli Pútíns og heldur íbúunum í heljargreipum. Hermenn hans eru þekktir fyrir ofbeldisverk og engin andstaða við yfirvöld er liðin.
Sjálfur kallar Kadyrov sig „fótgönguliða“ Pútíns. Í myndbandi, sem hann birti á mánudaginn, segir hann: „Úkraína er afgreidd. Ég hef áhuga á Póllandi. Hverju eru Pólverjar að reyna að áorka? Um leið og Úkraína hefur verið afgreidd getum við sýnt ykkur hvað við getum á sex sekúndum ef skipun berst.“
Kadyrov hefur oft gagnrýnt Vesturlönd með yfirlýsingum á samfélagsmiðlum, aðallega Instagram.
Hann sendi hersveitir til Úkraínu í upphafi stríðsins til að aðstoða Rússa en það var sannkölluð sneypuför. Hersveitir hans urðu fyrir miklu mannfalli og fengu litlu sem engu áorkað og sýndu hermenn hans að þeir eru ekki eins vel þjálfaðir og góðir hermenn og talið hefur verið.
Leiðtogi Téténa montaði sig af að vera að berjast í Úkraínu – Myndin sem hann birti kom upp um hann
Þeir hafa verið sakaðir um stríðsglæpi í Úkraínu. Til dæmis eru þeir sagðir hafa tekið þátt í aftökum á óbreyttum borgurum í úthverfum Kyiv.
Kadyrov birti myndir af sér á samfélagsmiðlum þar sem hann sagðist vera í Maríupól en þær reyndust vera teknar í Rússlandi.