Ein af tíu mæðrum sem hefur sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna vinnubragða matsmanns í forsjármáli segir í kvörtuninni að matsmaður geri henni upp falskar minningar um ofbeldi af hálfu barnsföður og „lýsir föður í raun saklausan, með vísan til framburðar hans og þrátt fyrir lögregluskýrslur, framburð vitna og vitnisburð annarrar barnsmóður föður um ofbeldi.“
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Líf án ofbeldis sem sagt var frá fyrir helgi en þar kom fram að alls tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson.
DV hefur óskað eftir viðbrögðum frá öllum þremur matsmönnunum – Guðrúnu, Rögnu og Gunnars Hrafns – vegna umræddra kvartana en engin svör hafa borist.
Afrit af þessum tíu kvörtunum fylgdu tilkynningunni frá Líf á ofbeldis sem eru baráttusamtöku mæðra og uppkominna barna sem krefjast þess að börn séu vernduð gegn ofbeldi í umgengnis- og forsjármálum.
Kvörtunin sem greint er frá hér að ofan er frá Bryndísi Ásmundsdóttur vegna starfa Gunnars Hrafns Birgissonar sem matsmanns í forsjármáli og var send til embættis landlæknis þann 26. ágúst 2021.
Þar segir ennfremur að matsmaður dragi þá ályktun að Bryndís sé í neyslu lyfja útfrá framburði barnsföður en líti framhjá því að Barnavernd taldi enga neyslu í gangi hjá henni og geðlæknir hennar telji hana ekki eiga í vandræðum með lyfjanotkun.
Sjá einnig: Þetta eru spurningarnar sem matsmennirnir þrír neita að svara
„Áfengissaga föður er nefnd en í niðurstöðu kafla er hann sagður vera edrú, án þess að neitt sé í matsgerð sem styðji þá fullyrðingu og fær faðir því ólíka meðferð hjá matsmanni sem á að vera hlutlaus fagaðili,“ segir í kvörtuninni.
Telur Bryndís matsmann vera mjög hlutdrægan í mati sínu og „þá virðist almennt mikið gert úr mínum brestum á meðan lítið er gert úr brestum föður og matsmaður því alls ekki óhlutdrægur í mati sínu.“
Einnig segir í kvörtuninni: „Matsmaður svarar ekki spurningum um hvort barn sé beitt eða gæti verið beitt ofbeldi hjá föður, þar sem hann ræðir ekki við önnur börn hans og spyr ekki drenginn sem um ræðir hvort faðir hafi beitt hann ofbeldi eða hvort óregla eða rifrildi sé á heimilinu, þrátt fyrir að í málinu liggi fyrir hljóðupptaka þar sem tveir synir föður ræða saman um framkomu föður við þá.“
Bryndís segir hér sögu sína í þættinum Eigin Konur hjá Eddu Falak:
Matsmaður er hlutdrægur í mati sínu, en þar sem aðilar fá svipaða niðurstöðu á prófum eru þær settar fram á mjög ólíkan hátt. Niðurstöður föður eru settar fram á mun jákvæðari hátt en niðurstöður mínar, jafnvel þó svo að niðurstöður aðila séu þær sömu. Þá virðist almennt mikið gert úr mínum brestum á meðan lítið er gert úr brestum föður og matsmaður því alls ekki óhlutdrægur í mati sínu.
Þá gengur matsmaður það langt að hann sest í raun í dómarasætið varðandi ofbeldi föður gagnvart mér þar sem hann lýsir föður í raun saklausan, með vísan til framburðar hans og þrátt fyrir lögregluskýrslur, framburð vitna og vitnisburð annarrar barnsmóður föður um ofbeldi. Hann lætur þó ekki þar við sitja heldur gerir mér upp falskar minningar um ofbeldið sem er órökstutt með öllu og með öllu ófagleg greining þar sem falskar minningar eru í besta falli umdeilt hugtak. Auk þess sem framburður minn um ofbeldi af hálfu barnsföður styðst við framburð vitna hjá lögreglu og framburð annarrar barnsmóður hans. Ekki eru kannaðar frásagnir annarra um ofbeldi og er alfarið litið framhjá framburði fyrrum barnsmóður sem varð fyrir ofbeldi og ekki rætt við son hans sem varð fyrir ofbeldi af hans hálfu skv. framburði mínum.
Þá er í matsgerð áberandi lítið af mælitækjum. Ekki eru notaðir skimunarlistar sem mæla þunglyndis- og kvíðaeinkenni og heldur ekki mælitæki sem meta einkenni persónuleikaraskana – en matsmaður leyfir sér samt sem áður að greina mig með persónuleikaröskun, en tilgreinir ekki hvaða persónuleikaröskun ég er með.
Matsmaður túlkar mikið útfrá persónuleikaprófi sem er úrelt og mjög umdeilt og er ekki notað neins staðar nema í forsjármálum af sumum matsmönnum. Það er ekki staðlað á Íslandi og er með mjög slakan innri áreiðanleika. Einnig er innbyggð kynjaskekkja á mælikvarða sem mælir hvort fólk sé að fegra sig á prófinu (L-kvarði).
Varðandi neyslu þá gerir matsmaður þá ályktun að ég sé í neyslu lyfja útfrá framburði barnsföður en lítur framhjá því að Barnavernd taldi enga neyslu eða áfengisneyslu í gangi hjá mér og að geðlæknir minn telji mig ekki eiga í vandræðum með lyfjanotkun.
Áfengissaga föður er nefnd en í niðurstöðu kafla er hann sagður vera edrú, án þess að neitt sé í matsgerð sem styðji þá fullyrðingu og fær faðir því ólíka meðferð hjá matsmanni sem á að vera hlutlaus fagaðili.
Matsmaður svarar ekki spurningum um hvort barn sé beitt eða gæti verið beitt ofbeldi hjá föður, þar sem hann ræðir ekki við önnur börn hans og spyr ekki drenginn sem um ræðir hvort faðir hafi beitt hann ofbeldi eða hvort óregla eða rifrildi sé á heimilinu, þrátt fyrir að í málinu liggi fyrir hljóðupptaka þar sem tveir synir föður ræða saman um framkomu föður við þá.
Aðeins er rætt við dreng í gegnum föður og á heimili hans, en ekki á heimili mínu sem er jafnframt lögheimili drengsins.
Þá fékk ég ekki tækifæri til þess að fara yfir og staðfesta þær upplýsingar sem fram koma í matsgerð líkt og staðhæft er í matinu og hafði hann rangt eftir mér í matsgerðinni. Þrátt fyrir að hafa leitast eftir því sjálf í tölvupósti (sjá fylgigagn). Auk þess sem að einhverju leyti er rangt haft eftir þeim aðilum sem matsmaður ræddi við vegna matsins.
Þá var ekkert rætt við skóla barnins.
Ekki sóttist matsmaður eftir nýjustu gögnum frá barnaverndarnefnd, heldur var aðeins stuðst við gömul gögn þrátt fyrir vitneskju um að nýleg gögn væri að vænta.
Framkvæmd matsins var ekki í samræmi við góða starfshætti þar sem ekki var tekið tillit til veikinda minna og ekki tekið tillit til þessa álags sem fylgdi því að fara í gegnum svona mat. Þar sem matsmaðurinn var á mínu heimili 9 klst. þar sem ég var látin þreyta próf í framhaldi af löngu samtali við matsmann þar sem farið var yfir mjög erfiða sögu, þar á meðal erfiða æsku og ofbeldi af hálfu maka.
Sjá einnig: Helga Sif segir matsmann hafa gaslýst dóttur sína – „Hvað er eiginlega að Helgu?”- Fjórða kvörtunin af tíu