Fyrsti tilfelli apabólu greindist í Danmörku í dag. Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, segir í samtali við RÚV að ljóst sé að sjúkdómurinn berist hingað til lands. Til þess að komast hjá smiti hvetur Þórólfur fólk til að vera ekki í nánu samneyti við ókunnugt fólk og gæti sín þegar kemur að kynlífi.
Sjúkdómurinn smitast aðallega við mjög náið samneyti milli fólks. „Bæði virðist það vera við kynmök. Smit í gegnum húð frá fólki sem er með vessandi útbrot, svo getur þetta smitast líka við náin samgang með dropasmiti þar að segja út frá öndunarvegi,“ segir Þórólfur í frétt RÚV.
Sérfræðingar hjá WHO – Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni hafa greint frá því að mögulegt sé að apabólusmit sem upp hafa komið megi rekja til kynlífs sam- og tvíkynhneigðra manna á tveimur reifum á Spáni og í Belgíu. Að minnsta kosti 60 einstaklingar hafa greinst í Evrópu og allar líkur á því að fleiri smit muni greinast á næstu dögum, jafnvel hópsmit.
Einkenni sjúkdómsins í mönnum fela í sér sár á húðinni, útbrot í andliti, lófum og á iljum, hrúður, hita, hroll og vöðvaverki. Engin lækning er til við sjúkdóminum en blessunarlega ná flestir sér sem smitast innan nokkurra vikna. Aðeins í sjaldgæfum tilvikum reynist sjúkdómurinn banvænn.