Það eru því Rússar sem hafa lykilinn að lausn þessa vanda í höndum sínum en þeir vilja ekki slaka á hafnbanninu fyrr en Vesturlönd aflétta þeim refsiaðgerðum sem þau beita þá vegna innrásarinnar í Úkraínu.
„Það sem veldur yfirstandandi matvælaskorti eru refsiaðgerðirnar sem Bandaríkin og ESB beita Rússa,“ sagði Andrei Rudenko, varautanríkisráðherra Rússlands, í svari til David Beasley yfirmanns matvælaaðstoðar Sameinuðu þjóðanna.
Rússar ætla því að halda úkraínsku höfnunum lokuðum þar til refsiaðgerðunum verður aflétt.
Beasley hefur biðlað til Pútíns um leysa úr málum hvað varðar útflutning á matvælum frá Úkraínu. „Ef þú hefur samúð með heiminum, óháð því hvað þér finnst um Úkraínu, neyðist þú til að opna hafnirnar,“ sagði Beasley í ákalli sínu til Pútíns.
Matvælaaðstoð SÞ (World Food Programme) brauðfæðir um 125 milljónir manna og kaupir um helminginn af því korni sem þörf er á frá Úkraínu.
António Guterres, aðalritari SÞ, hefur varað við matvælaskorti vegna stríðsins í Úkraínu. Hann segir að stríðið geti haft þær afleiðingar að vannæring og hungursneyð geti varað árum saman.