fbpx
Þriðjudagur 24.desember 2024
Fréttir

Tíu mæður lýsa „ófaglegum vinnubrögðum og hlutdrægni“ þessara matsmanna í forsjármálum og leita til Landlæknis

Ritstjórn DV
Fimmtudaginn 19. maí 2022 13:29

Sálfræðingarnir og matsmennirnir Gunnar Hrafn Birgisson, Guðrún Oddsdóttir og Ragna Ólafsdóttir.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Tíu mæður hafa sent kvörtun til embættis Landlæknis vegna „ófaglegra vinnubragða og hlutdrægni sálfræðinga sem taka að sér hlutverk dómkvaddra matsmanna og sérfróðra meðdómsmanna í forsjármálum.“ Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá samtökunum Líf án ofbeldis. Umræddir sálfræðingar eru þrír, þau Guðrún Oddsdóttir, Ragna Ólafsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson. Í tilkynningu segir að umræddir sálfræðingar saki mæður um að vera „lygasjúkar, jafnvel með falskar minningar og skamma þær fyrir að kalla sig þolendur ofbeldis.“ 

Í tilkynningu segir einnig:

„Fjórar kvennanna hafa þegar sagt sögu sína og fimm konur stíga nú fram undir nafni, þær Angelika Dedukh en DV fjallaði um málið hennar nýverið, Bryndís Ásmundsdóttir sem sagði sögu sína í Eigin Konum, Helga Agatha Einarsdóttir sem sagði sögu sína í Eigin Konum, Helga Sif Andrésdóttir sem sagði sögu sína í Eigin Konum, Andrea Splidt Eyvindsdóttir og Melkorka Þórhallsdóttir.“

Taka ekki tillit til ofbeldis

Kvartanirnar snúi að meintum afglöpum sálfræðinganna í störfum sínum. Þau hafi litið fram hjá mikilvægum gögnum sem sýni vanrækslu og ofbeldi en einnig snúist kvartanir um framkomu matsmanna við mæður og/eða börn þeirra sem og vinnubrögðum þeirra við forsjárhæfnismat.

„Í öllum málunum má finna þann samnefnara að umræddir sálfræðingar taka ekki tillit til ofbeldis sem mæður og börn greina frá, og gögn sýna fram á, og gerast hlutdrægir með föður sem hafnar því eða neitar að hafa beitt ofbeldi. „

Í tilkynningu segir að aðkoma matsmanna að málum hafi haft ráðandi áhrif á ákvörðun dóma um forsjá, en þremur málunum lauk með því að móðir var svipt forsjá yfir barni sínu þrátt fyrir að hafa greint frá ofbeldi föður. Í öðrum málum hafi lögheimili ferið fært til föður, sameiginleg forsjá dæmd og börn skikkuð í mikla umgengni við „hættulegar aðstæður“.

„Fyrsta kvörtunin var send til embættis landlæknis þann 26. ágúst 2021. Enn hefur ekki fengist nein niðurstaða varðandi þá kvörtun og því nokkuð ljóst að þolendur ofbeldis geta hvorki treyst á að yfirvöld hafi faglegt eftirlit með störfum matsmanna né reitt sig á inngrip yfirvalda í ófagleg vinnubrögð sem leiða til íþyngjandi dómsniðurstöðu. „

Einn matsmanna situr í siðanefnd Sálfræðingafélag Íslands

Eins hafi hluti kvennanna sent inn kvörtun sama efnis til siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands.

„En nefndin tekur ekki afstöðu til kvartana meðan dómsmál eru í gangi, og því er ekki von á inngripi þaðan inn í atburðarás sem hefur óafturkræf áhrif á líf barna. Þá hefur einni af kvörtunum mæðranna vegna vinnubragða og framkomu Rögnu Ólafsdóttur nú þegar verið vísað frá siðanefndinni. Vert er að taka fram að einn þeirra matsmanna sem kvartað er yfir, Guðrún Oddsdóttir, situr í siðanefnd Sálfræðingafélags Íslands.“

Konurnar telja að fullrar fagmennsku hafi ekki verið gætt í störfum áðurnefndra matsmanna og ekki hafi verið tekið tillit til allra gagna, sérstaklega þeirri er varði ofbeldi.

„Þá er ómetið það óbætanlega tjón sem það veldur börnum að vera færð í hendur ofbeldismanna og að vera ekki trúað þegar þau greina frá ofbeldi.“

Fjárhagstjónið hafi í sumum tilvikum verið verulegt og dæmi séu um að móðir neyðist til að fara í forsjármál vegna vanrækslu of ofbeldi föður en endi með að sitaj uppi með kostnað hátt í 20 milljónir króna.

Látin gjalda fyrir ofbeldið

Líf án ofbeldis lýsir yfir þungum áhyggjum af grafalvarlegri stöðu barna og mæðra í forsjármálum á Íslandi þar sem ofbeldi komi við sögu.

„Konurnar eru allar félagsmeðlimir í samtökunum Líf án ofbeldis og þær og/eða börn þeirra eru þolendur ofbeldis af hálfu föður. Í stað þess að taka tillit til ofbeldis sem greint er frá, og skylda er að taka tillit til samkvæmt barnalögum, eru mæður og börn látin gjalda fyrir það í málunum að leggja fram gögn og vitnisburði sem staðfesta ofbeldi með beinum og óbeinum hætti.“

Líf án ofbeldi benda á að umboðsmaður barna hafi árið 2011 beint því til Barnaréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna að brýnt væri að auka vernd barna gegn ofbeldi þegar teknar séu ákvarðanir um forsjá og umgengni. Engu að síður hafi ekkert breyst á þeim 11 árum sem séu liðin frá þessu erindi.

„Við minnum á að stjórnvöldum ber skylda til að grípa til allra nauðsynlegra aðgerða til að vernda börn gegn ofbeldi. Samkvæmt lögum um heilbrigðisþjónustu nr. 40/2007 og lögum um landlækni og lýðheilsu nr. 41/2007 er eftirlit með heilbrigðisstarfsfólki í höndum landlæknis.

Við treystum því að brugðist verði við kvörtunum í samræmi við tilgang laga og að ráðherrar málaflokkanna, heilbrigðisráðherra og dómsmálaráðherra grípi til nauðsynlegra ráðstafana til að efla eftirlit með fagmennsku sálfræðinga í forsjármálum og tryggja að fagleg þekking sé til staðar. Heilbrigðisvísindin eru komin miklu lengra í að viðurkenna þekkingu á afleiðingum ofbeldis á börn en mat sálfræðinganna gefur til kynna, réttast væri að mat á ofbeldishættu og ofbeldi væri sett í forgang í sérfræðimati og að áhrif þess á barn væri ávallt kannað með faglegum hætti. „

Frásagnir mæðranna

Með fréttatilkynningu má finna innihald þeirra kvartana sem lagðar hafa verið fram í heild sinni en Líf án ofbeldi dregur efni þeirra stuttlega saman með eftirfarandi hætti:

„Kvörtun Angeliku Dedukh, dags 24. mars 2022 vegna Rögnu Ólafsdóttur og Guðrúnu Oddsdóttur sem komu að forsjármáli sem yfirmatsmenn:

Faðir hlýtur refsidóm fyrir ofbeldi gegn bæði móður og barni í héraði. Dómur fyrir ofbeldi gegn barninu var staðfestur í Landsrétti en yfirmatsmenn leggja sig fram um að afsanna allar ásakanir móður um ofbeldi gegn börnum á heimilinu. Matsmenn gera lítið úr frásögn barnsins sem varð fyrir ofbeldi föður, láta í ljós að drengurinn sé með flöktandi augnaráð, sem eigi að vísa til þess að barnið sé ekki að segja satt. Meðfylgjandi kvörtun er vottorð um augnsjúkdóm barnsins sem veldur flöktandi augnaráði. Yfirmatsmenn komast að þeirri niðurstöðu að móðirin sé fégráðug og búi til frásagnir um ofbeldi til að græða pening.

Kvörtun (nafnlaus) vegna Guðrúnar Oddsdóttur til embættis landlæknis dags. 25. mars 2022:

Faðir er metinn hæfari til forsjár þrátt fyrir vanrækslu og hafa ítrekað komið í veg fyrir heilbrigðisþjónustu fyrir börnin. Alvarlegasta vanræksla matsmanns er að hún lítur alfarið framhjá alvarlegum veikindum annars barnsins og sterkum vilja þess um að hafna samskiptum við föður. Faðir kom í veg fyrir heilbrigðisþjónustu við barnið með skriflegum hótunum og ógnandi framkomu, auk þess að nema yngra barnið á brott og halda því frá móður og systkini í marga mánuði án nokkurra skýringa. Þrátt fyrir staðfestar frásagnir barnanna af líkamlegu ofbeldi föður og ótal tilkynningar t.d. heilbrigðisstarfsmanna og löggæsluaðila um ofbeldið, er litið framhjá því með öllu.

Kvörtun (nafnlaus) til embættis landlæknis dags. 24. apríl 2022 vegna Guðrúnar Oddsdóttur:

Faðir gengur hart fram svo árum skiptir að þvinga barnið sitt í umgengni við sig gegn vilja þess. Þegar barnið er aðeins fjögurra ára gamalt segir hann frá því að faðir hans hafi kýlt hann í höfuðið og hann sé hræddur við hann. Alvarlegasta vanræksla matsmanns er barnið fær ekki að njóta vafans en Guðrún Oddsdóttir neitaði að trúa frásögn barnsins af ofbeldi, þegar fyrir liggur greinargerð frá öðrum sálfræðingi sem taldi frásögn barnsins trúverðuga og barnið hitti reglulega í marga mánuði. Móðir hefur neyðst til þess að flýja land vegna áralangra ofsókna föður með hjálp kerfisins, en hann hefur nú stefnt henni fyrir að taka barnið með sér erlendis. 

Kvörtun Andreu  Splidt Eyvindsdóttur vegna Guðrúnar Oddsdóttur til embættis landlæknis dags. 30. apríl 2022:

Matsmaður kennir móður um kvíða barnsins sem augljóst er að tengist ofsóknum og stjórnun föður en andstaða barnsins við umgengni hófst þegar faðir faðir frelsissvipti barnið í marga sólarhringa sem refsingu við því að vilja vera meira hjá móður. Móðir greinir matsmanni frá andlegu, kynferðislegu og fjárhagslegu ofbeldi sem faðir beitti hana, auk líkamlegs ofbeldis í eitt skipti, sem hún telur ekki að hafi nein áhrif á forsjárhæfni föður. Barnið tjáir markaleysi föður gagnvart henni en matsmaður segir ekkert óeðlilegt við að faðir kyssi barnið á munninn því hún sjálf eigi frænkur á Vestfjörðum sem gera það. Matsmaður trúir ekki barninu og segir hana hafa búið sér til minningu um ofbeldi en rökstyður ekki þá skoðun. Samt segir hún að barnið hafi aldrei sagt frá ofbeldi en líka að atvik hafi átt sér stað þegar barnið var mjög ungt og því geti hún ekki munað eftir þeim sjálf. 

Kvörtun Melkorku Þórhallsdóttur til embættis landlæknis vegna aðkomu Guðrúnar Oddsdóttur að forsjármáli sem sérfróður meðdómari, dags. 19. apríl 2022:

Í máli þar sem Guðrún Oddsdóttir var sérfróður meðdómsmaður spyr hún móður hvort hún gangi út frá því að eiga barnið ein, þar sem lítið var gert úr barnaverndarlaga brotum föður. Forsjárhæfni móður þótti mun betri en föður og fram kom löng saga hans um ofbeldi en fyrir dóminum var samt gengið út frá því að sambandið hefði verið “stormasamt” og ekki hægt að skera úr um hver bæri ábyrgð á því. Árið 2019 hafði þó annar dómari séð ástæðu til að dæma um umgengni við föðurinn, undir eftirliti en eitthvað breyttist þegar Guðrún kom að málinu sem faglegur meðdómari.

Kvörtun Helgu Agöthu Einarsdóttur vegna Guðrúnar Oddsdóttur til embættis landlæknis dags. 14. apríl 2022:

Matsmaður lítur framhjá og gerir lítið úr áratuga langri sögu föður um ofbeldi og afbrot sem hann hefur hlotið dóma fyrir en lætur í ljós að andfélagsleg hegðun og neysla móður sé eitthvað í líkingu við sögu föður. Samt hefur móðir aldrei gerst brotleg við lög með ofbeldishegðun en faðir ítrekað fengið dóma og setið inni, auk þess að hafa veitt móður slíka áverka að hún lá inni á spítala vegna þeirra. Barnið hefði getað endað móðurlaust ef árásirnar hefðu gengið örlítið lengra, en matsmaður gerir nánast engar athugasemdir við alvarlegt ofbeldi mannsins og virðist hissa á því að samstarfið hafi ekki gengið vel á milli foreldranna. Matsmaður hló að móður þegar hún lýsti frásögn sinni af mjög alvarlegu ofbeldi.

Kvörtun (nafnlaus) vegna Rögnu Ólafsdóttur til embættis landlæknis dags. 28. apríl 2022 og siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands dags. 5. maí 2022:

Matsmaður notast við persónuleikapróf sem hafa mjög mikið vægi í -niðurstöðukafla. Í niðurstöðum þessara prófa er látið í ljós að móðir sé vænissjúk, en matsmaður tekur ekkert tillit til þess að ég segist vera þolandi ofbeldis og með áfallastreituröskun, sem í eðli sínu lýsir sér í því að vera stöðugt hrædd og á varðbergi. Einnig kemst hún að þeirri niðurstöðu að faðir hafi aldrei reynt að koma í veg fyrir samskipti barns við móður og að móðir ein beri ábyrgð á tengslarofi við barnið, en vísar ekki í neitt máli sínu til stuðnings. 

Kvörtun (nafnlaus) til embættis landlæknis dags. 31. mars 2022  og Siðanefndar Sálfræðingafélags Íslands dags. 04. júní 2020 vegna starfa Rögnu Ólafsdóttur sem matsmanns í forsjármáli: 

Matsmaður kemur fram við móður eins og um brot af hennar hálfu sé að ræða og sakar hana um að valda dóttur sinni og barnsföður skaða með að leyfa ekki eftirlitslausa umgengni við hann þegar grunur er um kynferðisbrot hans gegn barninu. Matsmaður hafnar yfirlýsingum frá tveimur systrum föður um kynferðisbrot hans gegn þeim og telur aðra frásögnina ótrúverðuga þar sem barnið 13 ára hafi ekki sagt mömmu sinni frá.  Faðir mælist klíniskt hátt á “psychopathic deviate scale” en það hefur Ragna til marks um sjálfshatur hans, þar sem hann eigi enga sögu um andfélagslega hegðun, maður sem hefur sjálfur viðurkennt kynferðisbrot gegn barni og er sakaður um að brjóta gegn tveimur öðrum börnum. Samhliða því segir hún móður dramatíska og athyglissjúka og að hún mistúlki orð dóttur sinnar um að hana klæjaði í píkunni því „pabbi skegg kitlar“ og „ekki nota marga putta“ þegar hún ætlaði að skipta á henni. Til að staðfesta að eðlilegt sé að faðir fái ítrekað holdris í návist barnsins notast matsmaður við þráð á Reddit sem heimild og þvagfæraskurðlæknis. 

Kvörtun Helgu Sifjar Andrésdóttur dags. 31. mars 2022 til embættis landlæknis vegna Rögnu Ólafsdóttur sem matsmanns í forsjármáli:

Móðir dregur í efa að það sé hlutverk matsmanns í forsjármáli að þvinga fram umgengni barns við foreldri gegn vilja þess, sem Ragna gerir. Matsmaður hafði vitneskju um alvarlegan og sársaukafullan sjúkdóm barnsins sem bregst illa við streitu og álagi, en tók ekkert tillit til þess. Börnin hafna eindregið umgengni við föður en Ragna segir við annað að faðir sé einn púslubiti fjölskyldunnar og að henni mun aldrei líða eins og hún sé heil ef hún hafnar umgengni við föður sinn, og tjáir henni að það hafi verið henni sjálfri erfið reynsla að rjúfa tengsl við sinn eigin föður í æsku. Matsmaður spyr barnið líka hvort henni finnist ekki undarlegt að móðir hennar hafi ekki stoppað ofbeldishegðun föður. Elsta barnið sem lýst hafði langvarandi ofbeldi föður á heimilinu og hafði gert tilraun til að svipta sig lífi vegna þeirra aðstæðna sem hann bjó við var aldrei kallaður í viðtal. Ragna sagði hann einfaldlega ekki koma þessu máli við, þar sem þau eru ekki alsystkini. Geðlæknir hans frá BUGL var fenginn til þess að skrifa skýrslu vegna elsta barnsins og leggja inn í matið, en þegar kemur að því þá neitar matsmaður að taka við skýrslunni. Móður sendir þá lögmanni sínum fyrirspurn með tölvupósti sem sendir erindið á Rögnu sem svarar. “Hvað er eiginlega að Helgu? Af hverju spyr hún mig ekki ef það er eitthvað í stað þess að hlaupa klagandi til þín?”. 

Kvörtun Bryndísar Ásmundsdóttur vegna Gunnars Hrafns Birgissonar til embættis landlæknis dags. 26. ágúst 2021:

Matsmaður sest í dómarasætið varðandi ofbeldi föður gagnvart móður þar sem hann lýsir föður í raun saklausan, með vísan til framburðar hans og þrátt fyrir lögregluskýrslur, framburð vitna og vitnisburð annarrar barnsmóður föður um ofbeldi. Hann lætur þó ekki þar við sitja heldur gerir móður upp falskar minningar um ofbeldið sem er órökstutt með öllu og með öllu ófagleg greining þar sem falskar minningar eru í besta falli umdeilt hugtak. Matsmaður svarar ekki spurningum um hvort barn sé beitt eða gæti verið beitt ofbeldi hjá föður, þar sem hann ræðir ekki við önnur börn hans og spyr ekki drenginn sem um ræðir hvort faðir hafi beitt hann ofbeldi eða hvort óregla eða rifrildi sé á heimilinu, þrátt fyrir að í málinu liggi fyrir hljóðupptaka þar sem tveir synir föður ræða saman um framkomu föður við þá. „

 

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir