Sandra Dís Sigurðardóttir innanhúshönnuður hafði heldur betur heppnina með sér, en hún veitti í dag viðtöku „gullnum miða“ flugfélagsins PLAY og getur nú flogið frítt með félaginu í heilt ár.
Það var sjálfur forstjórinn, Birgir Jónsson, sem fékk að tilkynna Söndru gleðitíðindin fyrr í vikunni og svo urðu miklir fagnaðarfundir í höfuðstöðvum PLAY fyrr í dag þegar Birgir afhenti henni gullna miðann.
„Sandra Dís var ein af 10 þúsund manns sem tóku þátt í Borgarkosningum PLAY um liðna helgi. Þar var fólk hvatt til að kjósa uppáhalds áfangastaðinn sinn í leiðakerfi PLAY til að komast í pottinn um að hreppa gullna miðann. Dregið var síðan úr þessum tíu þúsund manna hópi og mun Sandra Dís sem fyrr segir fljúga frítt á alla áfangastaði PLAY, sem eru 25 talsins, í heilt ár.“
Það var einn áfangastaður sem var langvinsælastur í borgarkosningum PLAY og það var sjálf borg draumanna, New York, sem reyndar hefur einnig verið kölluð frumskógur steinsteypunnar í vinsælu lagi. Í tilkynningu segir:
„Í borgarkosningum PLAY var einn áfangastaðurinn langvinsælastur en það var New York í Bandaríkjunum og var Sandra Dís ein af þeim fjölmörgu sem völdu þessa mögnuðu borg. Jómfrúarflug PLAY til New York Stewart alþjóðaflugvallarins verður 9. júní næstkomandi.
New York Stewart er í 75 mínútna fjarlægð frá Times Square-torginu í Manhattan ef farþegar velja að taka rútu frá flugvellinum sem verður tímasett eftir komum og brottförum PLAY.
Flugvöllurinn er í Hudson-dalnum þar sem finna má Woodbury Commons verslunarkjarnann sem er með 220 verslanir og allar þær helstu sem finna má á Madison Avenue í Manhattan. Þá var stærsti Legoland skemmtigarður í heimi opnaður í 25 mínútna akstursfjarlægð frá New York Stewart í fyrra.“