The Guardian segir að samkvæmt upplýsingum vestrænna leyniþjónustustofnana þá hafi Pútín verið að skipta sér af taktískum ákvörðunum herforingja, eitthvað sem er langt fyrir utan verksvið hans.
„Þjóðhöfðingi ætti að hafa annað og betra að gera en að taka ákvarðanir varðandi hernað. Hann á að leggja pólitískar línur en ekki skipta sér af daglegum athöfnum,“ sagði Ben Barry, fyrrum hershöfðingi í breska hernum og sérfræðingur í landhernaði hjá International Institute of Strategic Studies, í samtali við The Guardian.
Pútín er sagður hafa tekið ákvarðanir sem ofurstar eða hersveitarforingjar eigi frekar að taka.
Ekki fylgir sögunni hvort íhlutun Pútíns í ákvarðanatökunni eigi sinn þátt í að stríðsrekstur Rússar gengur mjög illa.