CNN segir að Indiana State Police í Sellersbrug hafi beðið almenning um aðstoð við að bera kennsl á líkið. Um er að ræða svartan dreng á aldrinum 5 til 8 ára. Hann er um 120 cm á hæð, mjósleginn og með stutt hár. Lögreglan segir að hann hafi látist á einhverjum tímapunkti vikuna áður en líkið fannst.
Krufning veitti ekki svör við hvernig hann lést en lögreglan vonast til að niðurstöður eiturefnarannsóknar muni veita svör við því og vonandi leiða hana í átt að lausn málsins.
Líkið fannst í ferðatösku, með hörðu yfirborði, sem áberandi Las Vegas merkingum að framan og aftan. Lögreglan var kölluð til eftir að manneskja, sem var að tína sveppi, fann töskuna þann 16. apríl og hafði strax samband við lögregluna.
Lögreglan hefur opnað sérstakt símanúmer sem fólk getur hringt í með upplýsingar um málið og hafa mörg hundruð símtöl borist. En lögreglan er engu nær því að vita hver drengurinn er og sagði talsmaður hennar að hann gæti þess vegna verið frá öðru landi en Bandaríkjunum.