„Það er erfitt að meta hvað telst vera umfangsmest, hvort það er t.d. metið út frá fjölda brotaþola eða öðru, en já, ég get fullyrt að þetta er eitt af umfangsmestu málunum,“ segir Kolbrún Benediktsdóttir héraðssaksóknari við þeirri spurningu DV hvort mál Brynjars Joensen Creed sé umfangsmesta kynferðisbrotamál sögunnar. Brynjar hefur verið ákærður fyrir brot gegn fimm stúlkum og verður dómur felldur í því máli næstkomandi fimmtudag. Hann er grunaður um miklu fleiri brot gegn margfalt fleiri stúlkum og segist Kolbrún ekki vita fjöldann, rannsóknir annarra mála en þeirra sem ákært hefur verið í eru enn á borði Lögreglunnar á Suðurnesjum.
Þegar skoðuð er ákæra héraðssaksóknara gegn Brynjari kemur í ljós að í flestum ákæruliðum er hann sagður hafa gerst brotlegur við 202. grein almennra hegningarlaga, 1. og 2. málsgreinar. Þær hljóma svo:
„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við barn, yngra en [15 ára], 1) skal sæta fangelsi [ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum“ og „Önnur kynferðisleg áreitni en sú sem greinir í 1. mgr. varðar fangelsi allt að 6 árum“. Ljóst er af þessu að meintir þolendur Brynjars eru undir 15 ára aldri. Kynmök fullorðinna við börn yngri en 15 ára eru refsiverð að lögum. Mök við 15 til 18 ára eru ekki fortakslaust ólögleg heldur þurfa þar að koma til blekkingar og tæling.
Brynjar er jafnframt sakaður um að hafa brotið gegn 194. grein hegningarlaganna, 1. málsgrein, en hún er eftirfarandi:
„Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann án samþykkis hans gerist sekur um nauðgun og skal sæta fangelsi ekki skemur en 1 ár og allt að 16 árum. Samþykki telst liggja fyrir ef það er tjáð af frjálsum vilja. Samþykki telst ekki liggja fyrir ef beitt er ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung. Til ofbeldis telst svipting sjálfræðis með innilokun, lyfjum eða öðrum sambærilegum hætti.“
Sést það enda af verknaðarlýsingum í ákæru að í sumum tilvikum er Brynjar sakaður um nauðganir gegn stúlkunum.
„Nei, hann játaði ekki sök nema að mjög litlum hluta,“ segir Kolbrún, aðspurð um hvort Brynjar hafi játað sök við aðalmeðferð í máli hans. Hún segir aðspurð rétt að sönnunargagna hafi verið aflað úr síma Brynjars við rannsókn málsins en DV hefur heimildir fyrir því að lögregla hafi einnig lagt hald á vinnubíl hans og aflað gagna úr ökurita.
DV hefur eftir öðrum heimildum að misnotkun Brynjars á stúlkunum hafi tekið á sig form tölvuleiks með fimm mismunandi stigum, eða borðum. Þannig hafi fyrsta borð verið að fá stúlku til að brosa eða hlæja í myndavél, borð tvö að senda mynd af buxnaklæddum afturenda og e.t.v. slá í afturendann, borð þrjú að hrista brjóst og senda mynd af næxbuxnaklæddum rassi, borð fjögur nakinn rass, brjóstaskora eða fullnekt; og lokaborðið er fullnæging í myndskeiði. Brynjar setti þetta upp sem leik og í síma hans fundust skjáskot af borðunum fimm og skilaboð á milli hans og ótalmargra stúlkna sem hann reyndi að fá til að spila leikinn. Nær allar þær stúlkur sem Brynjar á enn eftir að ákæra fyrir að hafa brotið gegn spiluðu leikinm við hann.
Brynjar er sagður hafa greitt stúlkunum fyrir þessar athafnir og myndskeiðasendingar með rafrettum, rafrettuáfyllingarvökva, áfengi, undirfötum og kynlífshjálpartækjum. Þess má geta að í ákæru er Brynjar meðal annars sagður hafa gerst brotlegur við lög um rafrettur og áfyllingar fyrir rafrettur, sem og við ákvæði áfengislaga. Einnig er hann sakaður um brot á 99. grein barnaverndarlaga, þar sem segir: „Hver sá sem hvetur barn til lögbrota, áfengis- eða fíkniefnaneyslu eða annarrar hegðunar sem stefnir heilsu barnsins og þroska eða lífi og heilsu annarra í alvarlega hættu skal sæta sektum eða fangelsi allt að fjórum árum.“
Sem fyrr segir verður dómur kveðinn upp í málinu næstkomandi fimmtudag en óvíst er hvort hann verður birtur opinberlega þar sem vernda ber persónuleynd þolenda. Hins vegar mun DV geta aflað upplýsinga um hvort Brynjar verði sakfelldur og hvaða refsingu hann fær.