Þau stórtíðindi bárust í morgun að Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, hefur sagt starfi sínu lausu. Munu ástæður uppsagnarinnar vera bæði faglegar og persónulegar. Nú sé Ísland komið á nokkuð góðan stað varðandi faraldur COVID, núverandi bylgja að mestu yfirstaðinn, og nýr kafli að hefjast í starfsemi sóttvarnalæknis. Þórólfur sé að komast á aldur að ári er hann verður 70 ára og því tími kominn til að fá inn nýjan sóttvarnalæknir til að gera upp COVID-faraldurinn og bæta framtíðarviðbrögð við faröldrum.
Þórólfur hefur verið tíður gestur á heimilum landsmanna í gegnum faraldurinn í gegnum fundi almannavarna, viðtöl og hvað eina. Því hafa margir gripið í lyklaborðið og sent Þórólfi þakkir og kveðjur við þessi tímamót.
Fjölmiðlamaðurinn Egill Helgason skrifar á Facebook:
„Manni er eiginlega hálf brugðið. Við stöndum í þakkarskuld við Þórólf. Hann hefur leitt okkur á farsælan hátt í gegnum kóvíð, þykist aldrei hafa öll svörin, er ekki of fullyrðingasamur, tekur mið af þeim upplýsingum sem honum berast, og nú þegar pestin hefur gengið verulega niður sýnist manni að flesta ákvarðanir hans hafi reynst vera farsælar. Þetta hefur verið feiknarlega erfitt og ábyrgðarmikið starf – svo maður er ekki hissa á því að hann kjósi að draga sig í hlé.“
Margrét Tryggvadóttir, rithöfundur og fyrrum þingkona skrifar á Facebook:
„Það er bara allt svo fallegt og faglegt við hann Þórólf. Nú er hann búinn að skila okkur í höfn og ætlar að stíga til hliðar og (vona ég) hvíla sig. Það gerir hann með góðum fyrirvara en setur líka í hendur eftirmannsins að skoða hvernig til tókst. Er hægt að segja annað en takk Þórólfur, það hefði ekki verið hægt að gera þetta betur.“
Ég vona að Þórólfi líði vel……að eilífu
— jáfíntjásælljáfíntjásælljáfíntjásælljáfíntjásæll (@thorhildurhlin) May 12, 2022
Í dag geng ég um gólf fyrir Þórólf í hinsta sinn.
— Hrafn Jónsson (@hrafnjonsson) May 12, 2022
Vá hvað ég skil hann vel að hætta aðeins fyrr en hann verður að gera samkvæmt lögum. Alveg búinn að skila sínu á lokaárum ferilsins.https://t.co/x5reYH2VcM
— Halldór Auðar Svansson 🇮🇸 🤝 🇺🇦 (@tharfagreinir) May 12, 2022
Af öllum sóttvarnalæknum sem hafa sagt upp starfi sínu gegnum áratuguna… þá er þessi tilkynning mesti skellurinn. pic.twitter.com/65CgzRBvyb
— Ragnar Eyþórsson (@raggiey) May 12, 2022
Aldrei fyrr og aldrei aftur mun ég skilja betur að einstaklingur kalli þetta gott og segi upp starfi sínu. https://t.co/yF7J4llwyH
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) May 12, 2022
Takk fyrir þína frábæru vinnu í gegnum þennan covid viðbjóð Þórólfur. https://t.co/WjRw56JIEF
— Arnór Bogason 💙💛 (@arnorb) May 12, 2022
Magnús Karl Magnússon, prófessor við Háskóla Íslands skrifar meðal annars á Facebook:
„Takk Þórólfur. Þessum einstaka manni eigum við mikið að þakka. Hann hefur reynst einstaklega farsæll farsóttarlæknir á víðsjárverðum tíma heimsfaraldurs. hann hefur siglt milli skers og báru með frábærum árangri. Aðgerðir hafa byggst á umfangsmikilli gagnasöfnun, stöðugri endurskoðun á aðgerðum og hreinskilinni og opinni upplýsingagjöf. Óvíða hafi færri látist vegna Covid-19, þrátt fyrir að samfélagið í heild hafi fundið minna fyrir sóttvarnaraðgerðum en í mörgum öðrum samfélögum.
Þetta er ekki sjálfgefið. Á haustmánuðum 1918 studdist landlæknir við „laissez faire“ (látum það danka) aðferðarfræði og hundruðir manna létust í kjölfarið á höfuðborgarsvæðinu.
Ég fagna með Þórólfi að fá að komast úr hringiðu þessa erfiða tíma en hann skilur eftir sig stórt skarð sem verður vandfyllt.“
Undir færslu Magnúsar ritar læknirinn Tómas Guðbjartsson: „Sammála hverju orði.“
Ofangreint eru aðeins fáein dæmi um þær kveðjur sem Þórólfur hafa verið sendar í dag. Undir þeim fréttum sem hefur verið deilt af uppsögn Þórólfs í dag hafa borist hundruð athugasemda þar sem meginstefið virðist vera á sama veg – Takk Þórólfur og njóttu núna lífsins.