Finnland hefur staðið utan varnarbandalagsins síðan það var stofnað 1949 og hefur þrætt þröngt einstigi allar götur síðan á milli Rússlands (áður Sovétríkjanna) og vestrænna nágrannaþjóða sinna.
En innrás Rússa í Úkraínu, sem ekki er aðili að NATÓ, breytti miklu og hefur valdið stefnubreytingu hjá finnskum stjórnmálamönnum sem og almenningi.
Allt frá því að innrásin hófst hefur stuðningur almennings við aðild að NATÓ farið vaxandi.
Finnska þingið þarf að samþykkja að sótt verði um aðild en það er talið vera nánast formsatriði. Síðan þurfa öll 30 núverandi aðildarríki NATÓ að samþykkja umsóknina.
Reiknað er með að sænska ríkisstjórnin muni á næstu dögum tilkynna að sótt verði um aðild að NATÓ.