Þýska dpa fréttastofan segir að fyrst hafi Sergei Sjvatjkin, héraðsstjóri í Tomsk í Síberíu, og Igor Vasiljev, héraðsstjóri í Kirov, tilkynnt um afsögn sína. Því næst tilkynntu héraðsstjórarnir í Saratov og Mari El um afsögn og að lokum tilkynnti Nikolai Ljubimov, héraðsstjóri í Ryazan, að hann gefi ekki kost á sér til endurkjörs.
Í tilkynningum þeirra kemur fram að sumir dragi sig í hlé vegna aldurs en aðrir vegna þess að þeir hafi gegnt embættinu svo lengi.
Abbas Galliamov, stjórnmálaskýrandi í Rússlandi, segir að sögn dpa að tilkynningar héraðsstjóranna geti verið afleiðing þess að þeir vilji yfirgefa sökkvandi skip áður en það sekkur alveg til botns. En þetta geti einnig verið vegna þrýstings frá æðstu stöðum innan pólitíska kerfisins.
Vladímír Pútín, forseti, skipaði nýja héraðsstjóra á þriðjudagskvöldið.