Josep Borrell, sem fer með utanríkismál í Framkvæmdastjórn ESB, er einn helsti talsmaður hugmyndar sem er mjög „rökrétt“ að hans sögn. Í viðtali við Financial Times sagði hann að aðildarríki ESB eigi af alvöru að íhuga að nota gjaldeyrisvaraforða Rússlands, sem var frystur af vestrænum yfirvöldum þegar Rússar réðust inn í Úkraínu, til að greiða fyrir hluta af uppbyggingunni.
Um mörg hundruð milljarða dollara er að ræða sem voru frystir af ESB og bandalagsríkjum. Þetta eru peningar sem eru í eigu rússneska seðlabankans.
Ef gripið verður til þessa ráðs þá verður svipuð leið farin og Bandaríkin fóru þegar Talibanar tóku völdin í Afganistan í ágúst á síðasta ári. Fyrri ríkisstjórn landsins átti þá milljarða dollara í bandaríska seðlabankanum. Bandarísk yfirvöld frystu þessa peninga og síðan ákvað Joe Biden, forseti, að peningunum yrði skipt jafnt á milli fórnarlamba hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 2001 og til manúðaraðstoðar í Afganistan.
„Ég er mjög hrifinn af þessari hugmynd, hún er mjög rökrétt. Við erum með peningana í okkar vösum,“ sagði Borrell meðal annars.
Framkvæmdastjórn ESB hefur áður sagt að kostnaðurinn við enduruppbyggingu Úkraínu muni kosta mörg hundruð milljarða evra.