Margir erlendir sérfræðingar höfðu reiknað með að Vladímír Pútín, forseti, myndi annað hvort lýsa því yfir að rússneski herinn hefði náð markmiðum sínum í Úkraínu eða lýsa yfir stríði á hendur Úkraínu en það hafa Rússar ekki gert og halda sig við að um „sérstaka hernaðaraðgerð“ sé að ræða.
En Pútín kom á óvart og gerði hvorugt. Ræða hans snerist um að reyna að varpa sökinni á stríðinu í Úkraínu á NATÓ með því að halda því fram að bandalagið hafi verið á þröskuldi þess að gera árás á Rússland og því hafi þurft að bregðast við með innrás í Úkraínu (sem hann nefndi ekki á nafn í ræðu sinni).
En fyrir utan frekar „máttlausa“ ræðu Pútíns þá vakti það athygli margra að „dómsdagsflugvél“ Pútíns tók ekki þátt í hersýningunni en til stóð að henni yrði flogið yfir Rauða torgið ásamt 76 öðrum flugvélum. Flugið hafði verið æft mikið dagana á undan.
Ástæðan sem var gefin upp fyrir því að vélunum var ekki flogið yfir Rauða torgið var að veður hamlaði því. Það var að mestu heiðskírt yfir Moskvu í gær, 10 stiga hiti og vindhraðinn var 6-7 m/s. En þetta var greinilega of „slæmt“ veður fyrir orustuþotur Pútíns og „dómsdagsflugvélina“ hans. Það er Ilyushin IL-80 flugvél sem Pútín getur leitað skjóls í ef til kjarnorkustyrjaldar kemur eða annarra hamfara. Það á að vera hægt að fljúga þessari vél í öllum aðstæðum en það var greinilega ekki hægt í gær þegar vindhraðinn var 6-7 m/s.
Sérfræðingar velta fyrir sér hvort það geti verið að Rússar séu búnir að senda nær öll sín hernaðartól til Úkraínu og að því hafi ekkert verið eftir í Moskvu til að taka þátt í hersýningunni.
Flugi herflugvéla var einnig aflýst í St. Pétursborg, Jekaterinburg, Samara og Novosibirisk. Á öllum þessum stöðu var hægur vindur í gær, bjart og frekar hlýtt.
Pútín vakti sjálfur athygli því hann virtist eiga erfitt með gang og ruglaðist á stólum þegar hann fékk sér sæti.
En hann var ekki einn um að vekja athygli því Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, vakti einnig mikla athygli. Hann kom akandi í opinni bifreið og var með svo margar heiðursorður á bringunni að þær földu næstum því þá staðreynd að hann hefur aldrei gegnt herþjónustu. Hann er verkfræðingur að mennt. Shoigu hvarf um hríð fyrr á árinu, samtímis og heimurinn áttaði sig á að Rússar væru víðs fjarri því að vera með undirtökin í stríðinu í Úkraínu.
En það sem vakti mesta athygli margra í gær var að Valery Gerasimov, æðsti herforingi landsins, var ekki viðstaddur. New York Times skýrði frá því fyrr í mánuðinum að þann 1. maí hefði hann farið til fremstu víglínu í Úkraínu til að hvetja rússnesku hermennina til dáða. En síðan bárust þær fregnir að hann hefði særst af völdum úkraínskrar sprengju. Hann var sagður hafa særst á læri, væri ekki í lífshættu en hefði særst svo illa að nauðsynlegt hefði verið að flytja hann til Moskvu. Þetta hefur ekki verið staðfest en fjarvera hans í gær hellti heldur betur bensíni á bálið hvað þennan orðróm varðar.