Hann byrjaði á að óska eftirlifandi hermönnum úr síðari heimsstyrjöldinni til hamingju með sigurinn og sagði síðan að í dag berjist rússneskir hermenn fyrir frelsinu. Því næst sagði hann að NATO-ríkin vilji ekki starfa með Rússum að sameiginlegu öryggi í Evrópu. Rússland geti ekki sætt sig við að NATÓ styrki sig nærri Rússlandi.
Því næst vék hann að Úkraínu og sagði að Vesturlönd hafi verið að undirbúa innrás í Rússland, þar á meðal á Krímskagann. „Við urðum að verja okkur,“ sagði hann og sagði að Vesturlönd vildu ekki hlusta á Rússland, þau væru með eigin áætlanir.
Hann sagði hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ hafa verið gerða á réttum tíma og hafi verið nauðsynleg. Þetta hafi verið eina rétta ákvörðunin.
Hann lauk síðan ræðu sinni á að þakka rússneskum hermönnum í Úkraínu fyrir frammistöðuna og sagði að almenningur í Donbas berjist nú með rússneskum hermönnum. Af orðum hans má ráða að stríðið haldi áfram.