The Guardian skýrir frá þessu og segir að einnig sé reiknað með að Wallace muni saka Pútín um að stela þessum árlega Sigurdegi og segja að helstu bandamenn hans og hershöfðingjar séu samsekir. „Með innrásinni í Úkraínu endurspegla Pútín, nánustu bandamenn hans og hershöfðingjar fasismann og einræðið eins og það var fyrir 70 árum. Þeir endurtaka mistök einræðisstjórnanna á síðustu öld,“ mun Wallace segja í ræðu sem hann flytur í the National Army Museum í Lundúnum nú í morgunsárið.
„Tilefnislaus og ólögleg innrás í Úkraínu, árás á saklausa borgara og heimili þeirra og útbreidd grimmdarverk, þar á meðal meðvitaðar árásir á konur og börn, eyðileggja minninguna um fórnir fyrri tíma og það sem áður var gott orðspor Rússlands á alþjóðavettvangi,“ mun hann einnig segja að sögn The Guardian.
Hersýningar verða í Moskvu og fleiri rússneskum borgum í dag í tilefni dagsins og Pútín mun væntanlega ávarpa þjóð sína. Margir bíða ræðu hans með eftirvæntingu því reiknað er með að hann muni annað hvort reyna að telja þjóð sinni trú um að sigur hafi unnist í stríðinu í Úkraínu eða lýsa yfir stríði á hendur Úkraínu en eins og er, er um „sérstaka hernaðaraðgerð“ að ræða eftir því sem Pútín og hans fólk segir.