Bragi Páll Sigurðsson, rithöfundur, var meðal þeirra sem stigu á stokk í gær á fimmtu mótmælunum sem haldin voru á Austurvelli vegna framkvæmdar á sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka í marsmánuði.
„En sumir þingmenn upplifa sig ómissandi. Því hefur jafnvel verið fleygt fram að ef allir ætluðu bara að segja af sér um leið og þeir gerðu eitthvað rangt yrði enginn eftir til þess að stjórna landinu. Ég veit ekki með ykkur en það hljómar eins og mesta bull sem ég hef heyrt. Eins og ef allir sem eru teknir við akstur undir áhrifum misstu prófið þá yrðu engir bílar á götunni,“ sagði Bragi Páll í ræðu sinni sem vakti gríðarlega athygli og hrópaði fólk ítrekað til að taka undir með honum á meðan á ræðunni stóð.
Bragi hefur ekki bara slegið í gegn sem beittur rithöfundur heldur einnig sem pistlahöfundur þar sem hann hefur reglulega skotið föstum skotum að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins.
Annað ræðufólk á Austurvelli í gær var Drífa Snædal, formaður ASÍ, og Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Guðmundur Pétursson framdi gítarópus, Einar Már Guðmundsson flutti ljóð og dúettinn Down & Out söng um sægreifa.
Góðir gestir.
Kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk. Svo sungu KK og Maggi Eiríks eitt sinn. Ómissandi fólk.
Það mætti þá kannski benda íslenskum stjórnmálamönnum á þá staðreynd að þeir eru ekki ómissandi. Samt segja þeir aldrei af sér. Virðing fyrir Alþingi hefur verið í sögulegu lágmarki síðustu 14 ár. Þingmenn þreytast ekki á að segja að reisa þurfi við virðingu þingsins. Á sama tíma neita þeir að stíga frá þegar þeir eru gripnir við að vanvirða þingið með spillingu og hreinum og klárum asnaskap.
En sumir þingmenn upplifa sig ómissandi. Því hefur jafnvel verið fleygt fram að ef allir ætluðu bara að segja af sér um leið og þeir gerðu eitthvað rangt yrði enginn eftir til þess að stjórna landinu. Ég veit ekki með ykkur en það hljómar eins og mesta bull sem ég hef heyrt. Eins og ef allir sem eru teknir við akstur undir áhrifum misstu prófið þá yrðu engir bílar á götunni.
Stenst það einhverja skoðun að einungis akkúrat 63 manneskjur ráði við það gríðarlega flókna verk að vera alþingisfólk? Nú hefur Bjarni Benediktsson ítrekað verið gripinn við afsagnarverð athæfi sem alþingismaður. Reyndar er nánast allt sem hann gerir afsagnarsök. Hann getur ekki farið fram úr rúminu án þess að selja ættmennum eignir okkar á útsöluprís, eiga alveg óvart stafla af peningum falda í skúffum á aflandseyjum eða skeina sér á skýrslum um sitt eigið vanhæfi.
Þrátt fyrir það vill hann meina að hann sé ómissandi. Að ef bara nógu margir kjósi hann þá sé það fyrirgefning syndanna. Að kjósendur Sjálfstæðisflokksins sjálfkrafa þvoi hendur hans af öllu því misjafna sem hann hefur gert.
Samkvæmt þessari speki þarf aldrei neinn embættismaður að segja af sér, sama hvað. Þú bara lætur greipar sópa, traðkar á þínum minnstu bræðrum og systrum, töfrar burtu óhentugar lýðræðislegar stjórnarskrár-kosningar og óheppilegar skýrslur og lætur svo stígvélasleikjur og trénaða klappstýrur kjósa þig til áframhaldandi starfa.
Rök Bjarna fyrir því að hann þurfi ekki að segja af sér sem kjörinn alþingismaður eru sem sagt þau að hann hafi verið kjörinn sem alþingismaður. Ég var ráðinn, þess vegna er ekki hægt að reka mig.
Kirkjugarðar heimsins geyma ómissandi fólk.
En Bjarni Benediktsson er ekki ómissandi. Þó hann segði af sér held ég að landið myndi pluma sig bara alveg ágætlega. Hann ætti ekki einu sinni að kalla sig fjármálaráðherra. Konungur þjófanna væri heiðarlegri titill.
Pabbi hans er ekki er ekki ómissandi fjárfestir. Hann er bara einhver eldri borgari sem var heppinn að fæðast inn í eina voldugustu ætt landsins. Ræður ekki við sig að hvítþvo dæmda barnananíðinga, á meira af peningum en hann veit hvað hann á að gera við svo hann ræður ekki heldur við sig að kaupa hlut í banka af syni sínum.
Sjálfstæðisflokkurinn er ekki ómissandi. Saumaklúbbur valdasjúkra auðmanna og varðhundanna þeirra. Hvernig getur þannig hópur verið gagnlegur þjóðinni? Sigurður Ingi er ekki ómissandi. Hann er rasískur dýralæknir með flagaraklút og þumalhring sem slysaðist á þing.
Katrín Jakobsdóttir er ekki ómissandi. Eitt sinn taldi ég mig vita hvað hún stæði fyrir, en það var þá. Það er nefnilega hægt að vinna jafn mikinn skaða með því að gera illt og að gera ekkert og leyfa því að viðgangast.
Nú höfum við ítrekað, sem þjóð, lent í því að stjórnmálafólkið okkar siglir í strand og neitar að taka ábyrgð. Ég held að hluti vandans sé sá að sjálfsmynd þessa fólks er svo rígbundin því að þau séu stjórnmálafólk. Geta ekki gert annað. Verða að halda í einhvern snefil af völdum á meðan slíkt er í boði.
Forveri Bjarna, Davíð Oddsson fór af þingi inn á Seðlabanka og þaðan upp í Mogga með froðuna í munnvikunum og rauðsprungin augun límd við nýjustu samsæriskenningar. Þegar fólk hefur haldið um valdataumana svona lengi hljómar það að sleppa af þeim takinu eins og martröð. Völd eru nefnilega ávanabindandi.
Hugsið ykkur alla niðurlæginguna sem Bjarni Ben hefur gengið í gegnum til þess eins að þurfa ekki að finna sér eitthvað annað að gera. Hann er sundurbarinn og brókaður með bremsufarið upp á hnakka og berst samt um eins og tveggja ára sonur minn þegar skipta þarf um bleyju á honum. Er til sorglegri persóna íslenskri stjórnmálasögu heldur en Bjarni Benediktsson. Drengurinn sem fæddist með munninn svoleiðis stappfullan af heilu sparistelli silfurhnífapara en getur samt ekki gert neitt rétt.
En af hverju segir Bjarni ekki sagt af sér? Af því hann er ekki búinn. Hefur ekki lokið ætlunarverki sínu. Áætlun hans er að smíða samfélag eftir sinni eitruðu hugmyndafræði. Samfélag þar sem tvær þjóðir búa í einu landi undir einum fána.
Önnur er lágtekjuþjóð. Fólkið sem þarf að bíða á biðlistum eftir því að komast á spítala sem eru fjársveltir og börnin þeirra sækja skóla sem eru undirfjármagnaðir og þarna vinna læknar, hjúkrunarfræðingar og kennarar sem fara í rað-börnát á of lágum launum. Þetta er þjóðin sem lifir frá mánaðamótum til mánaðamóta. Getur ekki leyft sér. Skrimtir. Launaþrælar elítunnar hans Bjarna.
Hin þjóðin er hátekjuþjóð. Sú sem Bjarni starfar fyrir. Hún kaupir sig fram fyrir í röðinni. Kaupir sér aðgang að betri heilbrigðisþjónustu, betri menntun fyrir börnin sín, betri mat, stærri húsum, betra lífi. Kaupir lúxusbifreiðir og leggur þeim í fatlaðrastæði og upp á gangstéttir. Kaupir ríkiseignir, okkar eigur, í lokuðu útboði á undirverði og græðir á því milljarða.
Þetta gerir hátekjuþjóðin með aðstoð Bjarna Ben. Það er ævistarfið hans. Að tryggja að hinir auðugu og valdamiklu haldi sínum hlut og hagnist á kostnað okkar hinna. Þetta er ástæðan fyrir því að hann getur ekki sagt af sér. Ekki af því hann er ómissandi, nei, það er vegna þess að hann er konungur þjófanna.
Takk fyrir mig.
Hér má síðan horfa Braga Pál flytja ræðuna á upptöku Samstöðvarinnar: