City A.M. skýrir frá þessu. Segir miðillinn að yfirmenn leyniþjónustunnar FSB, sem Pútín stýrði áður, séu svo ósáttir við frammistöðu rússneska hersins í Úkraínu að þeir hafi sett sig í samband við fjölda hershöfðingja og fyrrum yfirmanna í hernum.
Fram kemur að hópur, sem nefnist Siloviki, vinni hörðum höndum að því að ýta Pútín úr embætti. Í þessum hópi eru fyrrum liðsmenn FSB sem eru virkir þátttakendur í rússneskum stjórnmálum. Þeir eru sagðir starfa með fyrrum liðsmönnum GRU, KGB og FSO sem eru rússneskar leyniþjónustustofnanir.
City A.M. segir að það þyki styrkja orðróminn um yfirvofandi valdarán að mikil aukning hafi orðið í virkni á samfélagsmiðlum í Rússlandi og Austur-Evrópu síðasta sólarhringinn. Einnig eru sérfræðingar, utan Rússlands, sagðir segja að margt bendi til þess að Pútín standi frammi fyrir valdaránstilraun fljótlega. Hann er sagður „mjög áhyggjufullur“ og hafi hert öryggisgæslu í Kreml enn frekar.
Andrei Soldatov, sérfræðingur í málefnum Rússlands, sagði í samtali við The Center for European Policy Analysis að þetta skipti máli því Pútín hafi verið viðbúinn valdráni vikum saman og hafi sætt harðri gagnrýni fyrir hina „sérstöku hernaðaraðgerð“ (eins og hann kallar stríðið í Úkraínu) síðustu vikur. Hann hafi kennt um 150 liðsmönnum leyniþjónustunnar um slakt gengi rússneska hersins.
City A.M. segir að þessu til viðbótar gangi orðrómar um að heilsufari Pútín hafi hrakað mjög síðan stríðið hófst. Á nýlegum myndbandsupptökum sést að hann virðist þreyttur og pirraður. Á nýlegum fundi hans með Lukashenko, einræðisherra í Hvíta-Rússlandi, skulfu hendur hans mjög mikið og átti hann í erfiðleikum með að stöðva handskjálftann.
Það hefur ekki farið mjög leynt að samband FSB og ráðamanna í Kreml hefur versnað mjög eftir að innrásin hófst. Nokkrir liðsmenn FSB hafa verið handteknir og stungið í fangelsi, aðrir eru í stofufangelsi og enn aðrir hafa verið reknir. Allt hefur þetta verið gert að undirlagi Pútíns.
Alexey Muraviev, sérfræðingur í málefnum Rússlands, sagði í samtali við Sky News Australia að hann sé sannfærður um að valdarán sé yfirvofandi. Að hershöfðingjar og leyniþjónustumenn muni gera tilraun til að bola Pútín úr embætti. Það sé vaxandi spenna á milli Pútín og leyniþjónustunnar.