fbpx
Mánudagur 03.mars 2025
Fréttir

„Konur eru ekki kynlífstæki með púls sem eiga vera til taks 24/7 til að þjónusta karla“

Máni Snær Þorláksson
Miðvikudaginn 4. maí 2022 21:00

Jenný K. Valberg - Skjáskot/YouTube

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Flest höfum við einhverjar hugmyndir um hvað kynferðislegt ofbeldi er. Við lesum lýsingar kvenna sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi á vinnustöðum, skemmtistöðum og í heimapartýjum svo eitthvað sé nefnt.“

Svona hefst pistill sem Jenný K. Valberg, kynjafræðingur og ráðgjafi hjá Bjarkarhlíð, skrifar en pistillinn fjallar um kynferðislegt ofbeldi í nánum samböndum. Jenný segir að fæst átti sig á því kynferðislega ofbeldi sem á sér oft stað innan veggja heimilisins en hún segir slíkt ofbeldi vera gríðarlega mikið og alvarlegt.

„Þar sem menn beita markvissu og alvarlegu ofbeldi í skjóli þeirrar friðhelgi sem heimilið á að vera. Í nafni húsbóndavalds eða sjálfskipaðs makaréttar sem sá sem ofbeldi beitir, tekur. Þegar kona sem býr við ofbeldi kemur heim, opnar útidyrahurðina, fer úr yfirhöfn og skóm, leggur frá sér lykla og síma og gengur inn er hún ekki að koma heim í öryggi.“

Jenný segir að þau sem verða fyrir ofbeldi í nánum samböndum lýsi flest því sama. „Það er að þær hitta menn sem í upphafi sambands virðast heilbrigðir og góðir einstaklingar en eftir skamman tíma fer að bera á brestum,“ segir hún. Þá segir hún að auðvelt sé fyrir fólk að hunsa viðvararnir sem birtast þar sem mennirnir hafi verið frábærir í upphafi.

„Sérstaklega þar sem þeir eru mjög sannfærandi þegar þeir réttlæta hegðun sína og einnig vegna þess að þeir kenna þolanda sínum um það sem fór úrskeiðis og afsaka og réttlæta þar með gjörðir sínar. Ofbeldissambönd hefjast yfirleitt á því að sá sem beitir ofbeldi byrjar stýringu og stjórn með andlegu ofbeldi, þar sem hann fær hinn aðilann til að verða óöruggan um sína framkomu og hegðun en síðar bætast svo jafnvel fleiri birtingarmyndir ofbeldis við.“

„Þú ert ALDREI í stuði“

Jenný segir að algengasta birtingarmynd kynferðislegs ofbeldis í nánum samböndum er það sem hefur verið kallað að „nuða, suða og pressa“.

„Þá býr sá sem er með ofbeldishegðunina til kröfu um kynlíf sem er oft eitthvað á þessa leið „þú ert nú kærastan/konan mín“, „það er nú eitthvað skrítið að maður megi ekki neitt heima hjá sér“. „Viltu í alvöru að ég fari eitthvað annað“? „Er eitthvað að þér?“ „Þú ert ALDREI í stuði“. Markmiðið er að fá þolandann til að upplifa að kynlíf sé sjálfsagður réttur karls í sambandi og að konum sé skylt að veita þessa þjónustu.“

Hún segir að til að styrkja hlýðni kvenna í þessum aðstæðum noti menn andlegt ofbeldi á borð við „fýlustjórnun, reiði og/eða ógnarstjórn“. Svo segir hún að það sé algengt að þolandi hætti að reyna að standa með sjálfum sér og meti aðstæður þannig að  auðveldara sé að láta undan fremur en að eiga á hættu að gerandinn beiti frekara ofbeldi.

„Að nuða, suða og pressa um mörk, allir einstaklingar hafa persónuleg mörk sem eru þeirra innri áttaviti í gegnum lífið, þetta eru gildin okkar sem manneskjur og mörkin okkar. Þau endurspegla hver við erum og hvað við viljum.“

Þá nefnir Jenný setningar sem gerendur nota oft til að að ná sínu fram. „Heldurðu að ég myndi nokkurn tímann meiða þig?“,  „Treystir þú mér ekki?“, „Þú ert svo mikil tepra“, „Mætti halda að þú hafir verið misnotuð!“ „Ertu ekki með neitt ímyndunarafl?“ „Ég veit ekki hvort ég muni endast í sambandi með manneskju sem er ALDREI til í að gera neitt nýtt og „spennandi“, eru setningarnar sem hún nefnir.

„Oftast sér þolandi ekki aðra kosti en að gefa eftir“

Jenný segir að sumir gerendur í ofbeldissamböndum setji fram reglur í sambandinu. Hún nefnir sem dæmi svokallað „kynlífsdagatal“ en þá telja gerendur sig hafa rétt á lík0mum maka síns í ákveðið mörg skipti yfir ákveðið tímabil. „Þeir koma fram við maka sína eins og þær séu viðföng sem eigi að veita kynlíf með að minnsta kosti ákveðnu millibili og ef þær geti ekki orðið við því þá séu þær komnar í líkamlega skuld við maka sinn,“ segir hún.

„Oftast sér þolandi ekki aðra kosti en að gefa eftir til að losna við fýlu- og reiðistjórnun eða aðrar birtingamyndir ofbeldis. Oft er þannig einfaldara að gefa hreinlega eftir en að „taka slaginn“ því oftar en ekki þarf þolandinn hreinlega á því að halda að geta farið að sofa til að geta sinnt öðrum daglegum skyldum sínum, eins og börnum, vinnu og skóla.“

Hún segir að sumir gerendur búi það til að þolendur þeirra standi í líkamlegri skuld við sig ef þeir ætla að eiga einhverjar stundir fyrir sig sjálfa. Hún nefnir svo dæmi um setningar sem gerendur nota í þessum aðstæðum: „Ætlarðu út að hitta vinkonur? Ég ætla þá að fylla á tankinn hjá þér áður en þú ferð út“ og „Ég vil þá fá kynlíf um leið og þú kemur heim“.

„Allt sem er ekki JÁ, er nei!“

Næst ræðir Jenný um stigmögnun í kynferðislegu ofbeldi en hún segir það oft vera á þann veg að gerandi vilji að þolandi fari að taka þátt í athöfnum með öðrum utan sambandsins. „Annaðhvort með því að fara fram á að bæta þriðja aðila við í kynlífsathöfnum eða að fara fram á að þolandi sæki nektar og/eða kynlífsstaði,“ segir hún.

„Enn og aftur á þolandi erfitt með að neita án þess að það skapist fýla og spenna. Meginmálið er að ef þú færð ekki hreint svar um samþykki þá er svarið nei!“

Hún nefnir þá dæmi um svör sem þýða í raun nei:

„Hmm, leyfðu mér að hugsa“ þýðir í raun nei.

„Já þú meinar, ég veit ekki alveg“ þýðir í raun nei.

„Kannski seinna“ þýðir í raun nei.

„Skoðum málið“ þýðir í raun nei.

Allt sem er ekki JÁ, er nei!

„Í öllum framangreindum tilvikum liggur ekki fyrir samþykki konunnar. Líkami konunnar er „eign“ karlsins og hún hefur engan möguleika á að stöðva ofbeldið þar sem það myndi einungis gera hana útsettari fyrir öðrum birtingarmyndum ofbeldis,“ segir hún.

Þá segir Jenný að það þurfi ekki að fjölyrða um hversu alvarleg áhrif ofbeldi getur haft á líf þeirra einstaklinga sem fyrir því verða. „Vanvirðing gagnvart konum er í þessum tilvikum algjört, konur eru ekki kynlífstæki með púls sem eiga vera til taks 24/7 til að þjónusta karla,“ segir hún.

Að lokum bendir Jenný á að ef lesendur telji sig búa við ofbeldi í nánu sambandi geti þeir haft samband við Bjarkarhlíð, Kvennaathvarfið, Bjarmahlíð og Aflið á Akureyri, Sigurhæðir á Selfossi og Stígamót fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Hafrún þakkar Áslaugu Örnu lífsbjörgina – „Hún var sannarlega á réttum stað og á réttum tíma“

Hafrún þakkar Áslaugu Örnu lífsbjörgina – „Hún var sannarlega á réttum stað og á réttum tíma“
Fréttir
Í gær

Amma drengsins sem banaði Bryndísi Klöru greinir frá áfallasögu hans – „Eftir það var líf hans í frjálsu falli“

Amma drengsins sem banaði Bryndísi Klöru greinir frá áfallasögu hans – „Eftir það var líf hans í frjálsu falli“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Góa tekur yfir framleiðslu á Omnom

Góa tekur yfir framleiðslu á Omnom
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5

Sverrir Einar sýknaður af háum fjárkröfum vegna notkunar á merkinu B5