Allt er þetta mikill fengur fyrir Vesturlönd sem hafa aflað sér nýrrar þekkingar á rússneskum vopnum.
Í nýrri skýrslu, sem Jack Watling og Nick Reynolds, hafa birt um rússnesku vopnin kemur eitt og annað fram. Þeir fóru til Úkraínu til að skoða vopnin en þeir eru hernaðarsérfræðingar hjá hugveitunni Rusi. Í skýrslu þeirra kemur fram að það sé ákveðið mynstur sem endurtaki sig í rússnesku vopnunum.
Þetta mynstur er að nær öll tæknilegustu rússnesku vopnin eru háð íhlutum og tækni sem er flutt inn frá Vesturlöndum. Að þeirra mati ætti þetta að valda áhyggjum á Vesturlöndum og einnig í Rússlandi.
Þeir skoðuðu meðal annars Iskanderflugskeytakerfi og tilheyrandi flugskeyti en þessi vopn hafa lengi verið eitt helsta stolt rússneska hersins. Þeir tilgreina sérstaklega flugskeyti af tegundinni 9M727 sem er eitt fullkomnasta rússneska flugskeytið. Þeir segja að allt frá skynjurum til mikilvægra hluta í toppi flugskeytisins sé framleitt af bandarískum fyrirtækjum.
Það sama á við um 9M949, sem er 300 mm flugskeyti, og Kalibr flugskeyti og Tor-M2 loftvarnarkerfið. Þau eru að stórum hluta byggð úr íhlutum frá Vesturlöndum.
Í samvinnu við úkraínsku leyniþjónustuna komust þeir síðan að því að fjarskiptakerfi Rússa er í raun nothæft vegna íhluta sem eru framleiddir í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Hollandi, Japan og Suður-Kóreu.
Rússar eru í ákveðnum vanda með flugskeyti sín. Ekki er vitað hversu mörgum þeir hafa skotið á Úkraínu en þar sem stríðið hefur dregist á langinn eru vopnageymslur þeirra við það að tæmast af flugskeytum. Bandaríska varnarmálaráðuneytið hefur því komist að þeirri niðurstöðu að Rússar verði að fara sparlega með fullkomnustu vopnin sín. Þeir eiga erfitt með að verða sér úti um íhluti í þau vegna refsiaðgerða Vesturlanda.