„Á mínum æskuárum naut ég þeirrar gæfu í þrjú ár að vera nemandi eins virtasta listamanns þjóðarinnar, Ásmundar Sveinssonar. Það sem hann kenndi mér hefur fylgt mér alla ævi. Hann var góður og vitur maður sem heillaði alla sem umgengust hann.“
Svona hefst skoðanagrein sem listmálarinn Eyjólfur Einarsson skrifar en greinin birtist í Morgunblaðinu í dag. „En nú er öldin önnur þar sem hvítt er orðið svart og svart orðið hvítt. Allt í einu er Ásmundur orðinn rasisti og þar með úrhrak og leyfilegt að sverta orðspor hans og stela listaverki eftir hann,“ segir Eyjólfur næst í pistlinum.
Umræðan sem Eyjólfur vísar til hófst eftir að listakonurnar Bryndís Björnsdóttir og Steinunn Gunnlaugsdóttir stálu verki Ásmundar, málmskúlptúrnum Fyrsta hvíta móðirin í Ameríku. Verkinu var stolið af stöpli sínum á Laugarbrekku og settu Bryndís og Steinunn það í geimflaug fyrir utan Nýlistasafnið. Farangursheimild: Fyrsta hvíta móðirin í geimnum kölluðu þær gjörninginn sem þær réttlættu með því að fullyrða að verk Ásmundar væri rasískt.
„Við fögnum því að þetta rasíska verk sé loksins komið af stalli sínum og komið á sinn rétta stað inn í geimflauginni á leiðinni út í geiminn. Henni verður skotið upp og vonandi breytist hún þar í geimrusl sem flýgur í kringum jörðina,“ sagði Steinunn í kvöldfréttum Stöðvar 2 þegar fjallað var um málið í apríl.
Eyjólfur er allt annað en sáttur með þær Bryndísi og Steinunni og kemur því til skila í greininni. „Tvær myndlistarkonur sem álíta sig handhafa sannleikans frömdu þennan verknað í því skyni að berjast gegn rasisma, að þeirra sögn. Hvílíkt bull,“ segir hann.
„En annað er augljóst. Í listasögunni finnast ótal dæmi um fólk sem þjáist af því að hafa ekki öðlast nógu mikla athygli. Líklega toppar enginn ítalskan listamann um miðja síðustu öld sem hægði sér í niðursuðudósir og sauð afurðirnar niður. Hann náði skjótri frægð en þurfti ekki að drulla yfir orðstír annarra til að ná markmiðinu. Líklega verið séntilmaður. Til að ná markmiði sínu drulluðu listakonurnar yfir einn ástsælasta listamann þjóðarinnar, höfund verkanna Vatnsberans, Móðir mín í kví kví, Járnsmiðsins og fleiri, en urðu þar með fórnarlömb eigin drullu og urðu alræmdar.“
Eyjólfur segir þær Bryndísi og Steinunni réttlæta gjörðir sínar með hrokafullum yfirlýsingum. „En hvað með sjálfsvirðinguna? Það er kannski orð sem þær hafa aldrei heyrt. Einhver sjúkleg minnimáttarkennd virðist einnig leynast þarna þar sem trú á eigin hæfileika er í molum. Það er ekki annað hægt en að vorkenna þeim,“ segir hann.
Greinin fjallar þó ekki bara um reiði höfundar í garð listakvennanna tveggja. Eyjólfur er nefnilega líka ósáttur með það hve lítið hefur heyrst frá starfandi fólki í myndlistarheiminum um málið. „Er þessi þögn sama og samþykki?“ spyr hann.
„Einhverjir fara á hundavaði um þetta mál og bulla um frelsi og heilagleika listarinnar, þótt það brjóti á rétti annarra. Og þá komum við að orðinu þjófur sem margir forðast eins og heitan eld því það fellur ekki vel að hinu göfuga markmiði listarinnar og frelsi listamanna til að gera það sem þeim sýnist.“
Eyjólfur spyr hvers vegna ekkert sé búið að heyrast frá stjórn Sambands íslenskra myndlistarmanna vegna málsins. „Samtökum sem eiga að sjá um réttindi okkar myndlistarmanna? Er SÍM kannski með þögninni að samþykkja það að þjófnaður á verkum listamanna og árásir á mannorð þeirra séu réttlætanleg? Ef svo er þá hefur SÍM breyst í þjófafélag og hefur réttindi þjófa sinna í fyrirrúmi. Það væru ömurleg örlög þessa ágæta félagsskapar sem ég tók þátt í að stofna og hef fylgt síðan,“ segir hann.
Þegar líður að lokum greinarinnar ákveður Eyjólfur að deila nafnbótinni rasisti með læriföður sínum. „Að lokum nokkur orð til míns gamla vinar og læriföður: Í veröld þar sem hvítt er orðið svart og svart orðið hvítt og réttlætisriddarar ráða ríkjum og þú nýlega krýndur af þeim nafnbótinni rasisti væri mér það mikill heiður að fá að deila þessari nafnbót með þér,“ segir hann.