„Hjólreiðar skipta mig miklu máli. Ég hef hjólað til og frá vinnu um árabil og ég vil ekki skipta yfir í aðra samgöngumáta,“ segir Ástvaldur Lárusson, frambjóðandi í 10. sæti á lista VG í Reykjavík, í pistli sem birtist á Vísi í dag undir yfirskriftinni „Reykjavík á að verða hjólaborg“.
Ástvaldur segir að fyrir sér séu kostirnir við hjólreiðar ótvíræðir. „Með því að stunda þessu léttu hreyfingu kvölds og morgna næ ég að viðhalda líkamlegri og andlegri heilsu. Ég næ að spara stórar fjárhæðir sem annars færu í bensín og síðast en ekki síst er þetta umhverfisvænn ferðamáti,“ segir hann.
Það versta við að hjóla í Reykjavík samkvæmt Ástvaldi er það að borgin er ekki sérlega góð hjólaborg. „Er það ekki rakið dæmi að borgin okkar eigi að stefna að því að halda vel utan um innviðina í kringum samgönguhjólreiðar? Ef við fáum fólk úr bílunum á reiðhjólin þá erum við að fara að bæta lýðheilsu borgarbúa með því að stuðla að hreyfingu og minni mengum,“ segir hann.
„Þar að auki benda flestir útreikningar til þess að hver kílómetri af hjólreiðastíg er margfalt ódýrari í lagningu og viðhaldi en hver kílómetri af akvegi. Mér finnst eins og að fólk óttist það að hjólreiðastígarnir taki pláss frá einkabílnum. Ef það eru fleiri sem hjóla og þar með færri sem keyra þá er auðvitað meira pláss á vegunum fyrir þau sem þurfa sannarlega að nota einkabílinn.“
Ástvaldur segir þá frá hjólreiðum sínum utanlands en hann hefur mikið hjólað utan Íslands. „Sjálfur hef ég hjólað í 8 löndum á meginlandinu og hef því séð að það er hægt að gera hlutina vel og það er ekkert sem segir að staðsetning Reykjavíkur norður í ballarhafi komi í veg fyrir að það sé hægt að sýna metnað hér líka og gera hlutina almennilega,“ segir hann.
„Það skiptir ekki máli þó það rigni, snjói og blási og allt sé í brekkum; það eru til snjómoksturstæki, rafmangnshjól og útivistarföt.“
Það sem skiptir hins vegar máli samkvæmt Ástvaldi er að fólki finnist það vera örugt þegar það ferðast um á hjóli og að stígakerfið „meiki sens“. Hann segist skilja það vel að fólk missi áhugann á því að hjóla þegar það á stöðugt í hættu á því að verða fyrir bíl og það þarf að hjóla á erfiðum stígum sem enda svo á gangstéttarbrún.
„Ég vil búa í borg þar sem allir geta hjólað án tilliti til aldurs eða fjölskylduaðstæðna. Ég vil ekki þurfa að hætta að hjóla þegar ég þarf að fara að skutla börnum á leikskóla og í frístund. Ég vil geta haldið áfram að hjóla þegar ég verð orðinn afi. Ég vil hafa frelsi til þess að velja annan samgöngumáta en einkabílinn.“
Að lokum segir Ástvaldur að það sé lengi búin að vera stefna VG að auðvelda borgarbúum að fara leiðar sinnar hjólandi, gangandi eða með öðrum virkum samgöngumátum. „Vinstri-græn vilja beita sér fyrir því að unnið verði eftir nýrri hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og flýtt verði framkvæmdum við hjóla- og göngustíga.“