Klukkan 11:41 í morgun var sendur út tölvupóstur á nemendur Listaháskólans. Í tölvupóstinum kom fram að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að mæta í hádeginu daginn eftir og gefa fría hamborgara. Sjálfstæðisflokkurinn hefur tekið matartrukk í notkun fyrir kosningabaráttuna í sveitastjórnarkosningunum, úr trukknum er dreift svokölluðum „frelsisborgurum“ í skiptum fyrir möguleika á atkvæðum.
„Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að gefa hamborgara í hádeginu á morgun (þriðjudag, milli 12-13) á bílastæðinu í Laugarnesi,“ stóð í póstinum sem Listaháskólinn sendi til nemenda sinna í morgun.
Einn nemandi við skólann deildi póstinum á Twitter-síðu sinni og vakti hann töluverða athygli. Sagði nemandinn í færslunni að flokkurinn væri á öðru stigi veruleikafirringar. Var nemandinn líklega að vísa til þess að flokkurinn er ekki sá vinsælasti hjá listafólki enda hallar það í flestum tilvikum oftar til vinstri á stjórnmálaásnum.
Í athugasemdunum við færslu nemandans grípa margir í grínið. „Já þetta líst mér á. Bætir algerlega fyrir nepótismann og bankasöluna til pabba. Gleymt og grafið í mínum bókum. Þarf samt að vera Tommabogari,“ segir til dæmis í einni athugasemdinni. „Er þetta ekki sniðugt, sjallar grilla hamborgara og eru svo grillaðir af listaháskólanemum,“ segir svo í annarri athugasemd.
Regn, lista- og athafnakvár sem er nokkuð vinsælt á Twitter, birti einnig færslu um frelsisborgara Sjálfstæðisflokksins. Hán sagðist vera að pæla í að mæta hjá matartrukknum og spyrja Sjálfstæðisfólkið spjörunum úr. „Hvað þau ætli persónulega að gera fyrir upprennandi listafólk landsins, til dæmis að styrkja skólann meira, stöðva ritskoðun, styrkja jaðarmenningu, rýma fyrir óþekktu listafólki, auka fjármagn bæjarins til kaupa á almenningslist og svo framvegis,“ segir hán.
Þá birti hán athugasemd við færsluna sína þar sem hán sparkar hressilega í Sjálfstæðisflokkinn og segir hann vera „drullusama“ um listafólk.
Sjöllum er drullusama um okkur. Vilja kaupa fansí smansí snobblist af þekktu fólki, en gera öllum öðrum erfitt fyrir að koma sér á framfæri. Menning er órjúfanlegur hluti af samfélagi og einkahagsmunaseggirnir munu aldrei taka séns á okkur því það er „ekki örugg fjárfesting“
— Regn, Skvísumálaráðherra🇺🇦 (@skvisuregn) May 2, 2022
Ljóst er að ekki voru allir nemendur skólans spenntir fyrir því að japla á frelsisborgurum Sjálfstæðisflokksins því tæpum þremur tímum sendi skólinn annan tölvupóst á nemendur sína. Í þeim tölvupósti stóð eftirfarandi: „Sæl öll, vegna athugasemda höfum við afþakkað komu hamborgaravagnsins frá Sjálfstæðisflokknum á morgun.“