Fjögurra ára gamall drengur í Utrecht í Hollandi olli usla um helgina þegar hann tók bíl móður sinnar traustataki og skellti sér í bíltúr. Í frétt BBC um málið kemur fram að drengurinn hafi vaknað á laugardagsmorgni við að faðir hans var að fara til vinnu. Þá hafi hann fundið lykla af bíl móður sinnar og ákveðið að fara í ferðalag.
Fram kemur að drengurinn hafi keyrt stuttan spöl og síðan klesst utan í tvo kyrrstæða bíla. Hann hafi síðan yfirgefið vettvang slyssins í náttfötunum og berfættur. Vegfarendur sem sáu drenginn á röltinu í kuldanum hringdu í kjölfarið í lögregluna.
Ekki var strax ljóst að sá stutti hefði borið ábyrgð á árekstrunum. Um svipað leyti hafði verið tilkynnt um yfirgefinn bíl sem hafði lent í hnjaski. Lögreglu fór að gruna drenginn, sem lét fara vel um sig á lögreglustöðinni með rjúkandi heitt kakó, um græsku þegar þeir náðu sambandi við móður hans og sá stutti byrjaði að líkja eftir bílhljóði og þóttist vera að snúa stýri í símtalinu.
Málið leystist hratt og vel í kjölfarið og voru foreldrar drengsins hvattir til þess að fela bíllyklana fyrir hinum „nýja Max Verstappen“ eins og lögreglan kallaði bílstjórann unga í færslu á Instagra um málið.