Tómas A. Tómasson, þingmaður Flokks fólksins en áður kenndur við Búlluna, neitar að hafa keypt vændi í Taílandi árið 2014. Vísir greinir frá en tildrög málsins má rekja til skjáskota af skilaboðum sem Tómas átti við félaga sinn árið 2014.
Umrædd skilaboð voru birt á Facebook fyrir nokkru ásamt spurningunni hvort að skilaboð að þessu tagi væru sæmandi þingmanni.
Í skilaboðunum greinir Tómas frá því að vera lentur í Taílandi og segir svo meðal annars: „ein dasamleg 26 ara ca 45 kg var að yfirgefa herbergid smokklaust en byrjadi a nuddkonunni fyrr i dag kvoldið er ungt 20.21″
Vísir hafði samband við Tómas og bar skilaboðin undir hann. Tómas sagðist frekar hafa kosið að skilaboðin væru ekki í dreifingu en harðneitar því að þarna hafi hann verið að vísa til þess að hafa keypt vændi. Umrætt atvik hafi eins átt sér stað áður en hann varð kjörinn á þing.
„Ég hitti konu sem er yngri en ég, er það þá fréttaefni?,“ spurði Tómas. Hann sagði að skilaboðin hljómi kannski ekki vel en það sé varla athugavert að ógiftur maður hitti konu. Aðspurður hvort hann hafi einhvern tímann greitt fyrir kynlíf spurði Tómas á móti hvað fælist í þeirri spurningu.
„Ég hef boðið konu út að borða og það hefur endað með kynlífi. Ef það er að borga fyrir kynlíf þá, ja, hvað á ég að segja við þig? Er það að borga fyrir kynlíf?“
Eins velti Tómas því fyrir sér hvort það væri fréttnæmt ef Íslendingar borgi fyrir kynlíf á stöðum þar sem slíkt sé löglegt.