„Það var skýr vilji Pútíns. En það lítur ekki út fyrir að hann fái sigurinn sem hann vonaðist eftir. Rússland getur það ekki,“ sagði Hans Peter Michaelsen, hernaðarsérfræðingur, í samtali við Ekstra Bladet.
Það er stutt í daginn og því erfitt fyrir rússneska herinn að ná markmiðum sínum á þeim tíma. „Það verður mjög erfitt að ná þessu á þessum fáum dögum sem eftir eru. Þetta eru erfið tímamörk fyrir Pútín og herinn,“ sagði Mette Skak, lektor og sérfræðingur í málefnum Rússlands hjá Árósaháskóla.
Fyrir nokkrum vikum hörfuðu Rússar frá Kiyv til að geta einbeitt sér að Donbas. Pútín vonaðist til að hersveitir hans myndu ná svo stóru landsvæði í austurhluta Úkraínu á sitt vald að hann gæti lýst yfir sigri þann 9. maí. En eins og í Kyiv þá gengur illa hjá Rússum og þeir hafa aðeins náð minniháttar árangri í hernaði sínum.
Eins og staðan er núna getur Pútín ekki selt þjóð sinni þá sögu að sigur hafi unnist í stríðinu. Ekki er þó útilokað að hann muni reyna að „spinna“ sögu um að Rússar hafi samt sem áður sigrað og það þrátt fyrir gríðarlegt mannfall.
Áróðursmaskína ráðamanna er öflug en það mun væntanlega ekki duga til að sannfæra alla Rússa um að stríðið í Úkraínu hafi skilað árangri. Bíða margir því spenntir eftir að sjá og heyra hvaða útgáfu Pútín kemur með þann 9. maí.
En það er einnig annar möguleiki í stöðunni að mati sumra sérfræðinga. Þeir hafa bent á að þar sem Pútín geti ekki státað af neinum árangri þegar 9. maí rennur upp muni hann hugsanlega nota daginn til að stigmagna stríðsreksturinn. Hann geti til dæmis lýst því yfir að hin „sérstaka hernaðaraðgerð í Úkraínu“ (eins og rússneskir ráðamenn nefna stríðið) verði færð á annað stig og nú verði um hreint „stríð“ að ræða. Með því er hægt að kalla rússneska karlmenn til herþjónustu og fjölga þannig í rússneska herliðinu í Úkraínu.