FSB birti myndir af „sönnunargögnum“ sem fundust að sögn þegar nýnasistarnir voru handteknir. Meðal þess sem sést á myndunum er ljósmynd af Adolf Hitler, stuttermabolur með hakakrossinum og þrjú eintök af hinum vinsæla tölvuleik „The Sims“. Óhætt er að segja að þessi „sönnunargögn“ hafi vakið hlátur víða um heim.
Þau hafa ýtt undir vangaveltur um að hér hafi ekki verið um neitt annað að ræða en sviðsetningu rússnesku leyniþjónustunnar. Til dæmis hafa New York Post og norska fagblaðið Journalisten velt þeirri spurningu upp og fjallað um málið.
Ástæðan er að „sönnunargögnin“ hafa vakið upp efasemdir um frásögn FSB og margir hafa hlegið opinberlega að þeim.
Francis Scarr skrifaði til dæmis á Twitter: „Myndir frá aðgerðinni sýna „byrjunarpakka fyrir úkraínska nýnasista“ hönnuðum af FSB.“ Scarr starfar í greiningardeild breska ríkisútvarpsins, BBC Monitoring, og fylgist náið með fréttaflutningi rússneskra fjölmiðla.
FSB birti myndbandsupptöku af handtökunni. Á henni sést þegar sex menn eru handteknir. FSB segir að hald hafi verið lagt á sprengiefni, skammbyssur, skotfæri og eiturlyf. En síðan fara hlutirnir að líta undarlega út. Liðsmenn FSB sýna nefnilega muni sem eiga að sanna tilhneigingar hinna grunuðu nasista. Þetta eru:
Stuttermabolur með hakakrossi.
Mynd af Adolf Hitler.
Merki hinna illræmdu SS-sveita Totenkopf.
Græn hárkolla.
Þrír viðbótarpakkar við tölvuleikinn „The Sims 3“ frá 2009.
Það er kannski ekki alveg fráleitt að nýnasistar séu með mynd af Hitler í fórum sínum eða stuttermabol með hakakrossi en að þeir séu með slíkt og ætli að taka með sér í leynilega aðgerð hlýtur vægast sagt að teljast undarlegt.
En það sem hefur vakið mesta athygli og hlátur margra eru viðbótarpakkarnir þrír fyrir tölvuleikinn „The Sims 3“.
Eliot Higgins, stofnandi rannsóknarblaðamannahópsins Bellingcat, telur að þetta varpi ljósi á mistök:
„Ég held í hreinskilni sagt að þetta snúist um heimskan liðsmann FSB sem fékk það verkefni að útvega þrjú SIM.“
Classic saboteur checklist:
Explosives ✔️
Guns ✔️
Mein Kampf ✔️
Nazi Flag ✔️
The Sims Expansions ✔️✔️✔️ https://t.co/m1X7aAYRs9— Eliot Higgins (@EliotHiggins) April 25, 2022
Honum hafi verið ætlað að útvega þrjú SIM-kort fyrir farsíma til að „sanna“ starfsemi nýnasistanna en hafi misskilið verkefnið og í staðinn keypt þrjá viðbótarpakka af tölvuleiknum „The Sims 3“.
Önnur kenning, sem hefur verið á lofti, er að FSB hafi viljandi sett „The Sims“ pakkana með „sönnunargögnunum“ því í augum sumra Rússa inniheldur tölvuleikurinn „hommaáróður“.
En flestir telja að kenningin um SIM-kortin eigi best við.