Í nótt kviknaði í skotfærageymslu í Belgorod sem er skammt frá úkraínsku landamærunum. Bæjarbúar segja að sprengingar hafi heyrst áður en eldur braust út.
Aðfaranótt mánudags kviknaði í tveimur eldsneytisbirgðastöðvum í Bryansk sem er um 100 km frá úkraínsku landamærunum. Fyrst kviknaði í almennum olíulager með um 10.000 tonnum af eldsneyti og síðan í lager á vegum hersins en þar voru um 5.000 tonn af eldsneyti að sögn rússneskra yfirvalda.
Bryansk hefur verið einhverskonar miðstöð rússneskra hersveita á leið þeirra til Úkraínu og því ansi mikilvægur bær sem og eldsneytisbirgðastöðin.
Eldur í tveimur eldsneytisbirgðastöðvum í sama bænum á nánast sama tíma hlýtur að teljast ansi grunsamlegt og hafa rússnesk yfirvöld hafi rannsókn á eldsupptökunum að sögn TASS fréttastofunnar. Bryansk er það nálægt Úkraínu að hægt er að skjóta flugskeytum þaðan á bæinn og einnig er hægt að fljúga drónum frá Úkraínu til Bryansk til árása. Það er því ekki útilokað að Úkraínumenn hafi gert árás á eldsneytisbirgðastöðina.
En þessir eldsvoðar eru ekki einu dularfullu eldsvoðarnir sem hafa vakið athygli í Rússlandi að undanförnu. Fimmtudaginn 21. apríl kviknaði í rannsóknarstöð á vegum rússneska hersins. Hún er í Tver sem er um 180 km frá Moskvu. Þar hafa sum af bestu vopnum rússneska hersins verið þróuð. Eldurinn braust svo skyndilega út að minnst 17 létust og 27 slösuðust. RIA Novosti segir að eldurinn hafi komið upp í skrifstofurými á annarri hæð og hafi náð yfir 1.000 fermetra. Tvo daga tók að slökkva hann. Rússnesk yfirvöld segja að kviknað hafi í út frá gömlum raflögnum og að eldurinn hafi breiðst svona mikið út því ein og hálf klukkustund hafi liðið þar til óskað var eftir aðstoð slökkviliðs.
Á nánast sama tíma og eldurinn kom upp í rannsóknarstöðinni kviknaði í stórri efnaverksmiðju sem er um 330 km norðaustan við Moskvu. Þar eru framleidd efni sem eru notuð í gúmmí, málningu og ýmsar eldsneytistegundir. Sem sagt efni sem eru mjög mikilvæg fyrir rússneska herinn. Yfirvöld segja að eldurinn hafi kviknað eftir að starfsmaður sullaði niður asetoni sem kviknaði síðan í af völdum stöðurafmagns.
Það má því velta því fyrir sér hvort tilviljun hafi valdið því að þessir eldsvoðar áttu sér stað á svo skömmum tíma eða hvort um mynstur sé að ræða. Það virðist eiginlega vera ótrúlegt að allir þessir eldsvoðar hafi komið upp fyrir tilviljun á sama tíma og Rússar berjast í Úkraínu.