En þrátt fyrir að talið sé öruggt að þau séu par þá hafa Vesturlönd ekki beitt Alina neinum refsiaðgerðum eins og þau hafa til dæmis beitt Pútín, aðra rússneska ráðamenn og olígarka landsins.
Wall Street Journal beindi augum sínum að Alina um helgina, bæði einkalífi hennar og hennar þætti í að leyna auðæfum Pútíns, peningum sem hann hefur stolið frá rússnesku þjóðinni. Talið er að þau eigi þrjú börn saman en Alina hefur að sögn dvalið með þau í Sviss, hún er með svissneskt og rússneskt ríkisfang, síðan Rússar réðust inn í Úkraínu.
Bandarískir embættismenn hafa sagt fjölmiðlum að Alina hafi ekki verið beitt refsiaðgerðum því óttast sé að það geti „skilist sem svo mikið persónulegt áfall fyrir Pútín að það geti gert slæmt samband Bandaríkjanna og Rússlands enn verra“.
Nú hefur talskona Hvíta hússins tjáð sig um málið að sögn BBC. Á fréttamannafundi í gær sagði Jen Psaki, fjölmiðlafulltrúi Hvíta hússins, að það væri ekki með vilja að Alina hafi ekki verið beitt refsiaðgerðum. Hún sagði að áfram verði haldið að vega og meta refsiaðgerðirnar þegar hún var spurð af hverju Alina er ekki beitt refsiaðgerðum.
Hún sagði að Pútín, dætur hans og nánustu samstarfsmenn hans séu á listum Vesturlanda yfir þá sem eru beittir refsiaðgerðum og það sé sífellt verið að endurmeta þessa lista.